Ellert: Óli var ekkert sérstaklega ánægður með mig

„Ég er bara mjög sáttur. Það er gott að halda hreinu og skora fjögur mörk,“ sagði Ellert Hreinsson, framherji Breiðabliks, eftir 4:0-sigurinn á andorrska liðinu FC Santa Coloma í fyrri viðureign liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

„Við höfðum ekki hugmynd um hverju við vorum að fara að mæta. Við höfðum ekki miklar upplýsingar um þetta lið en miðað við styrkleikann áttum við ekki að fá á okkur mark.“

Ellert reyndi hvað hann gat að skora þrennu. Átti að koma sér í sögubækurnar? „Það hefði ekki verið verra. Ég sá bara að markvörðurinn stóð framarlega en skotið var ekki gott,“ sagði Ellert og glotti, spurður um skottilraun sína fyrir aftan miðju.

Framherjinn fékk óþarfa gult spjald fyrir groddalega tæklingu í fyrri hálfleik. Algjört óþarfa spjald í svona leik og hann veit af því.

„Óli var ekkert sérstaklega ánægður með mig. Ég splæsi ekki oft í svona tæklingar en ákvað að gera það í fyrri hálfleik úti í horni,“ sagði Ellert Hreinsson.

Allt viðtalið má sjá í myndbandinu hér að ofan.

mbl.is