BÍ/Bolungarvík: Þetta er einsdæmi

Úr leik BÍ/Bolungarvíkur og Fjölnis í sumar.
Úr leik BÍ/Bolungarvíkur og Fjölnis í sumar. mbl.is/Styrmir Kári

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnufélags BÍ/Bolungarvíkur, vill árétta að félagið standi ávallt við gerða samninga við leikmenn sína og um einsdæmi sé að ræða í máli Danans Dennis Nielsens.

Í frétt Morgunblaðsins í dag um að fyrsta mál Leikmannasamtaka Íslands sé afgreitt kemur fram að Nielsen hafi leitað hjálpar samtakanna að fá ógreidd laun frá Djúpmönnum.

Hann taldi sig eiga inni laun fyrir nóvember og desember sem félagið taldi sig ekki þurfa greiða þar sem hann var laus frá félaginu 16. október og fór á reynslu til annarra liða eftir það.

Á endanum leystist málið farsælega en Djúpmenn vilja koma fram yfirlýsingu um málið.

Yfirlýsingin:
„Stjórn Bí/Bolungarvíkur vill koma á framfæri staðreyndum vegna fréttar Morgunblaðsins nú í morgun um mál þar sem að leikmannasamtök Íslands aðstoðuðu Dennis Nielsen, fyrrverandi leikmann félagsins, að fá vangreidd laun.

Svo að það komi fram þá var ágreiningur á milli félagsins og Dennis um hvort að hann ætti að fá greidd þessi laun. Leikmaðurinn var með samning sem rann út 31. desember og vildi hann meina að félagið ætti að greiða sér laun út samningstímann, sem og við svo gerðum.

Við aftur á móti töldum við okkur ekki þurfa að greiða honum laun fyrir nóvember og desember þar sem að leikmaðurinn var frjáls ferða sinna eftir 16. október.

Leikmaðurinn fór af landi brott og var til skoðunar hjá nokkrum félögum erlendis og hér heima. Við hjá Bí/Bolungarvík stöndum við gerða samninga við leikmenn okkar og greiðum þeim það sem samið er um.

Þetta er einsdæmi og var þetta ágreiningur á milli leikmannsins og félagsins og þess vegna voru þessar greiðslur ekki greiddar á tilsettum tíma.

F.H stjórnar Bí/Bolungarvikur

Samúel Samúelsson, formaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert