Önnur landsliðskona Mexíkó í Þór/KA

Stephany Mayor í leik með Mexíkó.
Stephany Mayor í leik með Mexíkó. Af netinu

Kvennalið Þór/KA sem leikur í Pepsi-deildinni hefur fengið vænan liðsstyrk fyrir sumarið en í dag samdi félagið við mexíkósku landsliðskonuna Stephany Mayor.

Mayor, sem er 25 ára gömul, er önnur landsliðskonan sem Þór/KA fær til sín á skömmum tíma en félagið fékk markvörðinn, Cecilia Santiago, á dögunum. Hún er samherji Mayor í mexíkóska landsliðinu.

Mayor spilar sem framherji en til gamans má geta að hún lék ásamt Ceciliu á HM sem fór fram á síðasta ári. Cecilia hefur hins vegar leikið á tveimur stórmótum.

Þá á Mayor 55 landsleiki að baki og hefur hún gert 10 mörk í þeim.

mbl.is