Milos hættur með Víkinga

Milos Milojevic.
Milos Milojevic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic er hættur sem þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu en knattspyrnudeild Víkings sendi frá sér fréttatilkynningu rétt í þessu.

Fréttatilkynning Víkings:

„Samkomulag hefur orðið á milli knattspyrnudeildar Víkings og Milos Milojevic að hann láti af störfum sem þjálfari Pepsi-deildarliðs félagsins frá og með deginum í dag.

Ástæða starfslokanna er skoðanaágreiningur sem reyndist óyfirstíganlegur.

Milos tók við sem aðalþjálfari sumarið 2015 af Ólafi Þórðarsyni en hann hefur unnið samfleytt hjá félaginu frá árinu 2009.

Knattspyrnudeild Víkings þakkar honum samstarfið og óskar honum velfarnaðar en Milos á mikinn þátt í uppbyggingu félagsins síðustu ár.

Dragan Kazic og Hajrudin Cardaklija munu stýra liðinu tímabundið.“

Víkingur fær Breiðablik í heimsókn í Pepsi-deildinni á sunnudagskvöldið en Blikar ráku Arnar Grétarsson úr starfi og stýrir Sigurður Víðisson Kópavogsliðinu tímabundið. Víkingur vann KR á útivelli í fyrstu umferðinni en hefur tapað fyrir Grindavík á heimavelli og í síðustu umferð gegn ÍBV í Eyjum. Í fyrrakvöld komust Víkingar í 16-liða úrslit bikarkeppninnar eftir 4:2 sigur á móti Haukum á Ásvöllum og það reyndist vera síðasti leikur liðsins undir stjórn Milosar.

mbl.is