Ég er hávaxinn og hann hitti mig í bringuna

Callum Williams
Callum Williams mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er gott að ná í þrjú stig eftir að hafa gert þrjú jafntefli í röð. Við þurftum þennan sigur til að fjarlægjast fallsætin og við viljum alls ekki vera í fallbaráttu,“ sagði Callum Williams, varnarmaður KA, eftir 1:0-sigur á Víkingi R. í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Fossvogi í dag. 

Vla­dimir Tufegdzic fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleik fyrir að sparka í Williams.

„Þetta var mjög erfiður leikur og stundum er erfiðara að spila gegn tíu leikmönnum. Þetta snerist um að halda út og takmarka færin hjá þeim. Við hefðum átt að skora fleiri því við fengum góð tækifæri í skyndisóknum.“

„Hann var ofarlega með löppina. Ég er frekar hávaxinn en hann hitti mig samt í bringuna en ég er viss um að hann ætlaði ekki að meiða mig.“

Illa hefur gengið hjá KA að vinna leiki að undanförnu en hvað breyttist í dag? 

„Við höfum verið að vinna í að vera þéttari og hafa ekki of mikið svæði á milli varnarinnar og miðju hjá okkur. Það tókst vel í dag, miðjan og vörnin stóð vel.“

Seinka þurfti leiknum um korter, þar sem rúta KA-manna bilaði í Borgarnesi. 

„Við stoppuðum í Borgarnesi til að borða og rútan fór ekki af stað aftur. Það var smá vesen en það er í lagi því við náðum í þrjú stig. Við ætlum að halda áfram að leggja mikið á okkur og reyna að vinna eins marga leiki og við getum,“ sagði Englendingurinn að lokum. 

mbl.is