ÍBV bikarmeistari á dramatískan hátt

ÍBV varð bikarmeistari kvenna í knattspyrnu eftir 3:2-sigur gegn Stjörnunni eftir framlengdan leik á Laugardalsvellinum í kvöld.

Það voru Cloé Lacasse, Kristín Erna Sigurlásdóttir og Sigríður Lára Garðarsdóttir sem skoruðu mörk ÍBV í leiknum, en Agla María Albertsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu mörk Stjörnunnar. 

Cloé Lacasse kom ÍBV yfir strax í upphafi leiksins þegar hún komst inn í slaka sendingu Kristrúnu Kristjánsdóttur til baka á Gemmu Fay. Cloé Lacasse lék laglega á Gemmu Fay og renndi boltanum í netið. 

Þá var komið að þætti Hörpu Þorseinsdóttur í leiknum. Undir lok fyrri hálfleik sá Harpa til þess að Stjarnan fór með forystu inn í hálfleikinn. Harpa lagði upp mark Öglu Maríu Albertsdóttur og skömmu síðar kom Harpa Stjörnunni yfir með marki sínu. 

Cloé Lacasse kom, sá og sigraði

Það leit allt út fyrir sigur Stjörnunnar, en sóknardúettinn Cloé Lacasse og Kristín Erna Sigurlásdóttir var hins vegar ekki á sama máli. Cloé Lacasse átti góðan sprett upp vinstri vænginn þegar skammt var eftir af leiknum og renndi boltanum á Kristínu Ernu sem skoraði með skoti af stuttu færi í autt markið. 

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2:2 og því þurfti að framlengja. Þar var það Cloé Lacasse sem einu sinni sem oftar gerði gæfumuninn fyrir ÍBV, en hún krækti í vítaspyrnu um miðbik seinni hluta framlengingarinnar og Sigríður Lára Garðarsdóttir skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnunni. 

Þetta er í annað skipti sem kvennalið ÍBV verður bikarmeistari, en liðið bar síðast sigur úr býtum í bikarkeppninni árið 2004. 

Stjarnan 2:3 ÍBV opna loka
120. mín. Einni mínútu bætt við venjulegan leiktíma í seinni hálfleik framlengingarinnar.
mbl.is