Andri nálgaðist markametið í sigri

Kristijan Jajalo, markvörður Grindavíkur, grípur boltann í fyrri leiknum gegn …
Kristijan Jajalo, markvörður Grindavíkur, grípur boltann í fyrri leiknum gegn Breiðabliki í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Grindavík vann 4:3-sigur á Breiðabliki á heimavelli sínum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag í skemmtilegum leik. Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvö marka Grindavíkur og er hann nú kominn með 18 mörk og vantar aðeins eitt til viðbótar til að jafna markametið yfir flest mörk skoruð á einu tímabili í efstu deild Íslands. 

Grindvíkingar byrjuðu nokkuð vel og var boltinn á vallarhelmingi Breiðabliks fyrstu þrjár mínútur leiksins. Grindavík fékk m.a. horn og var ljóst að heimamenn ætluðu að sækja frá upphafi. Það kom því nokkuð á óvart þegar Breiðablik komst yfir á 4. mínútu. Aron Bjarnason skoraði þá með hnitmiðuðu skoti í bláhornið. Varnarmenn Grindavíkur geta ekki verið sáttir þar sem hann var gjörsamlega einn og fékk nægan tíma til að stilla miðið.

Grindavík svaraði markinu með að halda áfram að sækja og var það verðskuldað þegar Gunnar Þorsteinsson jafnaði leikinn á 15. mínútu. Hann skoraði þá af stuttu færi eftir afar fallega sókn Grindavíkur. 15 mínútum síðar var komið að Andra Rúnari Bjarnasyni. Hann skoraði þá sitt 17. mark í sumar, þegar hann gerði sér lítið fyrir og skoraði úr aukaspyrnu af um 35 metra færi. Hann var svo aftur á ferðinni undir lok fyrri hálfleiks þegar hann skallaði í netið af stuttu færi eftir góða sendingu frá Marínó Axel Helgasyni og var staðan í hálfleik 3:1.
Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og fékk Martin Lund vítaspyrnu á 52. mínútu. Hrvoje Tokic tók spyrnuna og skoraði af miklu öryggi. Breiðablik hélt áfram að sækja án afláts næstu mínútur. Vörn Grindavíkur stóð vel og voru það heimamenn sem skoruðu næsta mark leiksins á 88. mínútu. Elfar Freyr Helgason skallaði þá boltann í eigið net eftir góðan undirbúning varamannsins Arons Freys Róbertssonar.

Blikar neituðu hins vegar að gefast upp og Gísli Eyjólfsson skoraði fallegt mark á síðustu mínútunni í venjulegum leiktíma. Hann reyndi þá skot utan teigs og boltinn hafði viðkomu í slánni áður en hann datt í fjærhornið. Nær komust Blikar hins vegar ekki 4:3-sigur Grindavíkur staðreynd.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Grindavík 4:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Gísli Eyjólfsson (Breiðablik) skorar 4:3 - Þetta er ekki búið! Gísli skorar með glæsilegu skoti í slánna og inn. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is