Kannski kærkomið frí fyrir Gylfa

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við lítum bara á þetta með jákvæðum augum og vonandi hefur þetta ekki áhrif á í hvernig standi hann verður á HM sumar. Hann ætti að geta náð síðustu leikjum Everton á tímabilinu sem er bara gott mál,“ sagði landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans um meiðsli Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Everton greindi frá því í hádeginu að Gylfi verði frá keppni næstu 6-8 vikurnar vegna hnémeiðslanna sem hann varð fyrir í leiknum á móti Brighton í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

„Gylfi fær núna frí sem er kannski kærkomið fyrir hann því Gylfi hefur spilað meira og minna alla leiki Everton á tímabilinu. En auðvitað vill enginn meiðast og maður veit aldrei hvernig menn braggast af meiðslum. Sumir eru fljótari að ná sér en ætlast er til en aðrir lengur. Vonandi verður bara Gylfi fljótur að ná sér, bæði fyrir hann og landsliðið.

Gylfi mun örugglega gera það sem hann á að gera. Vonandi verður þetta bara styttri tími sem hann verður frá keppni,“ sagði Heimir við mbl.is.

mbl.is