Annar sigur á norsku liði frá upphafi

Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði sigurmarkið í kvöld.
Eiður Aron Sigurbjörnsson skoraði sigurmarkið í kvöld. mbl.is/Sigfús Gunnar

Sigur Valsmanna á Rosenborg í kvöld í forkeppni Meistaradeildar Evrópu er aðeins annar sigur íslensks liðs gegn norsku liði í Evrópukeppni í karlaflokki í knattspyrnu frá upphafi.

Breiðablik hafði áður unnið eina sigurinn í fjórtán Evrópuleikjum liða frá Íslandi og Noregi.  Blikar unnu einmitt Rosenborg 2:0 á Kópavogsvelli árið 2011 en höfðu áður tapað fyrri leiknum í Þrándheimi, 5:0.

Sjö þessara fimmtán leikja hafa verið gegn Rosenborg, sem áður hefur unnið KR í fjórum leikjum, 1965 og 2015, og svo mætt Breiðabliki eins og áður sagði.

Keflavík og ÍBV hafa gert jafntefli á heimavelli, Keflavík gegn Lillestrøm árið 2006 og ÍBV gegn Viking Stavanger árið 1972, en aðrir leikir gegn norskum liðum hafa tapast.

Sigurmark Eiðs Arons Sigurbjörnssonar fyrir Val á Hlíðarenda í kvöld, 1:0, er aðeins áttunda markið sem íslensku liðin skora gegn þeim norsku í þessum fimmtán leikjum en mörk norsku liðanna eru samtals 35. Í sjö einvígjum norskra og íslenskra liða til þessa hafa norsku liðin alltaf komist áfram.

Hjá Valsmönnum er þetta áttundi sigurleikurinn í 53 Evrópuleikjum þeirra frá upphafi.

Á morgun verður önnur viðureign Íslendinga og Norðmanna í Evrópukeppni þegar ÍBV tekur á móti Sarpsborg í Vestmannaeyjum í forkeppni Evrópudeildar UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert