Dalvík/Reynir upp og Ægir niður

Dalvík/Reynir leikur í 2. deild á næsta ári.
Dalvík/Reynir leikur í 2. deild á næsta ári. Ljósmynd/Dalvík Sport

Dalvík/Reynir tryggði sér í dag sæti í 2. deild karla í fótbolta að ári með 1:1-jafntefli við KH á heimavelli í dag í 17. umferð deildarinnar.

Þorri Mar Þórisson kom Dalvík/Reyni yfir með marki á 16. mínútu áður en Pétur Máni Þorkelsson jafnaði á 87. mínútu og þar við sat. Dalvík/Reynir er með fjögurra stiga forskot á KF í þriðja sæti þegar ein umferð er eftir. 

KFG er í öðru sæti, þremur stigum á eftir KH, eftir dramatískan sigur á Ægi á útivelli, 3:2. Ægir fékk niður í 4. deild fyrir vikið. Jóhann Ólafur Jóhannsson kom KFG yfir á 18. mínútu áður en Diego Minguez jafnaði fyrir Ægi. Jóhann Ólafur var aftur á ferðinni á 54. mínútu og kom KFG í 2:1. Emanuel Nikpalj jafnaði hins vegar fyrir Ægi á 65. mínútu en Magnús Björgvinsson kom KFG yfir í þriðja skipti á síðustu mínútunni með sigurmarkinu og felldi Ægismenn í leiðinni. 

KF var í öðru sæti fyrir umferðina, en liðið gerði slæma ferð í Vesturbæinn og tapaði 2:0 fyrir KV. Jón Konráð Guðbergsson kom KV yfir strax á áttundu mínútu og Einar Már Þórisson bætti við öðru marki á 48. mínútu og þar við sat. 

Sindri vann gríðarlega mikilvægan 3:2-sigur á Einherja og tryggði sér þar með áframhaldandi sæti í 3. deild. Tómas Leó Ásgeirsson kom Sindra yfir með eina marki fyrri hálfleiks áður en Todor Hristov jafnaði úr víti á 53. mínútu. Tveimur mínútum síðar skoraði Zlatan Gafurovic fyrir Sindra og á 57. mínútu skoraði Tómas Leo sitt annað mark. Georgi Ivanov lagaði stöðuna fyrir Einherja á 65. mínútu en sigur Sindra varð staðreynd. 

Augnablik gerði 1:1-jafntefli við Vængi Júpíters á heimavelli. Arnór Brynjarsson skoraði sjálfsmark á 18. mínútu og kom Vængjum Júpíters yfir en Hrannar Bogi Jónsson jafnaði fyrir Augnablik á 71. mínútu og þar við sat. 

Í lokaumferðinni berjast KFG, KF og Vængir Júpíters um hvert þeirra fylgir Dalvík/Reyni upp í 2. deild. Ægir er eina liðið sem fellur úr deildinni í ár þar sem liðum er fjölgað úr tíu í tólf fyrir næsta tímabil.

Staðan í deildinni: 

  1. Dalvík/Reynir 32
  2. KFG 29
  3. KF 28
  4. Vængir Júpíters 27
  5. KH 25
  6. Einherji 25
  7. KV 23
  8. Augnablik 21
  9. Sindri 19
  10. Ægir 12
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert