Gylfi fer í myndatöku í dag

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson fer í myndatöku í dag en hann meiddist á ökklanum eftir ljóta tæklingu Brasilíumannsins Jorg­in­ho í viðureign Chelsea og Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Ólíklegt verður að telja að Gylfi verði með íslenska landsliðinu í leikjunum gegn Belgíu og Katar vegna meiðslanna en Íslendingar mæta ógnarsterku liði Belga í Þjóðadeild UEFA á fimmtudagkvöldið og leika svo vináttuleik á móti Katar á mánudaginn í næstu viku.

Landsliðið kemur saman í Brüssel í dag og tekur sína fyrstu æfingu síðdegis. Mikið er um forföll í íslenska liðinu en þeir Jóhann Berg Guðmundsson, Ragnar Sigurðsson, Emil Hallfreðsson, Jón Daði Böðvarsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúnar Már Sigurjónsson og Björn Bergmann Sigurðarson eru allir meiddir og verða ekki með í þessum tveimur leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert