AGF styður við Tómas Inga

Tómas Ingi Tómasson er aðstoðarþjálfari U21-landsliðs Íslands.
Tómas Ingi Tómasson er aðstoðarþjálfari U21-landsliðs Íslands. mbl.is/Ómar

Á sunnudaginn verður Tommadagurinn haldinn í Egilshöll þar sem ætlunin er að safna fé til stuðnings við Tómas Inga Tómasson, knattspyrnuþjálfara, og hans fjölskyldu.

Tómas Ingi hefur ekki enn náð bata eftir að hann fékk gervimjöðm í ársbyrjun 2015 og frá því í apríl síðastliðnum hefur hann eytt yfir 200 dögum á spítala. Fjórar aðgerðir hérlendis hafa ekki skilað árangri en Tómas bíður þess nú að komast í aðgerð í Þýskalandi.

Vinir og velunnarar Tómasar standa fyrir Tommadeginum þar sem meðal annars fer fram „úrslitaleikur Tommamótsins“ kl. 11, en þar mætast tvö úrvalslið full af landsfrægum fótboltakempum.

Á ferli sínum sem leikmaður lék Tómas Ingi meðal annars tvö ár með AGF í Danmörku og danska félagið lætur sitt ekki eftir liggja. Á heimasíðu sinni óskar félagið Íslendingnum alls hins besta og bendir á söfnun sem að gamlir liðsfélagar hans og meðlimir í „old boys“-liði AGF standa fyrir. Rifjað er upp þegar Tómas skoraði umdeilt mark gegn Esbjerg árið 1999, í leik sem á endanum þurfti að endurtaka vegna þess að markið var dæmt ólöglegt. Þegar liðin mættust að nýju skoraði Tómas aftur, í 1:0-sigri. Meðal annars vegna þessa muna margir í Árósum enn eftir Tómasi, segir á vef AGF.

Þeim sem ekki komast á Tommadaginn en langar að styrkja verkefnið er bent á að hægt er að leggja inn á reikning 528-14-300, kt. 0706694129.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert