Orri Sigurður aftur í Val

Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val.
Orri Sigurður Ómarsson í leik með Val. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Varnarmaðurinn Orri Sigurður Ómarsson er genginn í raðir Vals frá norska félaginu Sarpsborg. Orri lék með Val í þrjú ár og varð tvívegis bikarmeistari og einu sinni Íslandsmeistari áður en hann fór til Noregs. Hann skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við Val, sem kaupir hann af Sarpsborg. 

Orri fékk lítið að spila hjá Sarpsborg og vildi því yfirgefa félagið. Hann var lánaður til HamKam í B-deildinni á síðustu leiktíð og lék þar 13 leiki. Hann var aldrei í byrjunarliði Sarpsborg og kom aðeins tvisvar inn á sem varamaður og lék 49 mínútur. 

Orri á þrjá A-landsleiki fyrir Ísland og fjölmarga leiki fyrir yngri landsliðin. Valsmenn hafa verið duglegir að safna liði fyrir næsta sumar. Á dögunum gengu þeir Gary Martin, Emil Lyng og Lasse Petry í raðir félagsins. 

mbl.is