Framboð Geirs kveikti í Ragnheiði

Ragnheiður Ríkharðsdóttir íhugar að bjóða sig fram til formanns KSÍ …
Ragnheiður Ríkharðsdóttir íhugar að bjóða sig fram til formanns KSÍ en hún sat á Alþingi á árunum 2007 til ársins 2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri, tilkynnti það á Facebook-síðu sinni í kvöld að hún íhugi nú að bjóða sig fram til formanns KSÍ. Ársþing KSÍ verður haldið 9. febrúar næstkomandi á Hilton Reykjavík Nordica en Guðni Bergsson, núverandi formaður sambandsins sækist eftir endurkjöri, og þá er Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ til tíu ára, einnig í framboði.

„Ástæðurnar fyrir því að ég er að íhuga framboð til formanns KSÍ eru einna helst tvær. Í fyrsta lagi þá hef ég alltaf haft mikinn áhuga á fótbolta, alveg frá blautu barnsbeini, enda alinn upp við þessa bráðskemmtilegu íþrótt. Í öðru lagi fór ég að íhuga þetta líka þegar fyrrverandi formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, ákveður að bjóða sig aftur fram eftir tveggja ára fjarveru. Þegar Geir tilkynnti um framboð sitt hugsaði ég með mér hvort reynsla, áhugi og þekking gæti ekki skipt máli líka og þetta eru ástæðurnar fyrir því að ég er að íhuga framboð á annað borð,“ sagði Ragnheiður í samtali við mbl.is í kvöld.

Ragnheiður segist enn vera velta því fyrir sér hvort hún ætli sér að bjóða sig fram en hún er knattspyrnunni vel kunn. Faðir hennar er Ríkharður Jónsson, einn besti leikmaður Íslands frá upphafi, og sonur hennar er Ríkharður Daðason, fyrrverandi landsliðsmaður.

Mikill uppgangur hefur verið hjá íslenska karlalandsliðinu á undanförnum árum.
Mikill uppgangur hefur verið hjá íslenska karlalandsliðinu á undanförnum árum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jákvætt hversu vel hefur gengið

„Ég er ekki komin það langt í þessum hugleiðingum mínum að ég sé tilbúin að fara að ræða mína framtíðarsýn fyrir KSÍ. Ég er fyrst og fremst að íhuga það núna, hvort ég láti slag standa og bjóði mig fram. Fari svo, að ég ákveð að bjóða mig fram, mun ég kynna mín stefnumál þegar þar að kemur. Það er með þetta eins og öll önnur störf, að þegar maður tekur að sér eitthvert ákveðið verkefni, þá ríkir ákveðin stefna og hjá KSÍ gilda lög og reglur sem fólk þarf að vinna eftir. Fyrst og síðast er KSÍ grasrótarsamtök fyrir knattspyrnuna á Íslandi og það er svo bara jákvætt hversu vel hefur gengið, bæði hjá landsliðunum okkar og félagsliðunum.“

Ragnheiður viðurkennir að það hafi komið henni mikið á óvart að Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, hafi ákveðið að bjóða sig fram til formanns KSÍ á nýjan leik en hann tilkynnti um framboð sitt um síðustu helgi.

Geir Þorsteinsson tilkynnti um framboð sitt til formanns KSÍ um …
Geir Þorsteinsson tilkynnti um framboð sitt til formanns KSÍ um síðustu helgi. mbl.is/Árni Sæberg

Sérkennilegt í meira lagi

„Fólk hefur alltaf val en ég skal alveg viðurkenna það að mér finnst mjög sérkennilegt að Geir Þorsteinsson hafi ákveðið að bjóða sig fram á nýjan leik. Hann starfaði innan veggja KSÍ sem bæði formaður og framkvæmdastjóri, árum saman, og ákveður svo að stíga til hliðar fyrir tveimur árum síðan. Núna vill hann koma aftur inn og segist vera með breytta sýn á það sem hann stóð sjálfur fyrir í einhver 25 ár. Mér finnst þetta mjög sérstakt og maður veltir því að sjálfsögðu fyrir sér hvort það séu ekki fleiri sem geti stigið þarna inn og gefið kost á sér í þetta embætti sem snýst fyrst og fremst um að vinna fyrir fótboltann í landinu.“

Ragnheiður segist hafa íhugað þetta með sjálfri sér og ákveðið að birta hugleiðingar sínar á Facebook þar sem hún hefur fengið góðar undirtektir.

„Það er alls ekki þannig að ég sé með einhvern hóp á bak við mig sem er að hvetja mig til þess að bjóða mig fram. Ég íhugaði þetta ein með sjálfri mér og ákvað að lokum að setja þetta á Facebook til þess að sjá hvaða viðbrögð ég fengi. Næstu skref væru svo að ræða við fólk innan knattspyrnuhreyfingarinnar og hvort það telji mig eiga möguleika á því að komast að. Ég hef fengið frábær viðbrögð frá því ég setti færsluna inn á Facebook og það er mörgum sem finnst þetta mjög góð hugmynd sem er auðvitað bara skemmtilegt,“ sagði Ragnheiður Ríkarðsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert