Pressa á mér að geta sagt bransasögur

Alfreð Finnbogason og Birkir Bjarnason fagna marki þess síðarnefnda í ...
Alfreð Finnbogason og Birkir Bjarnason fagna marki þess síðarnefnda í sigrinum á Andorra í gærkvöld. Ljósmynd/UEFA

„Maður verður líka ábyrgðarfyllri sem leikmaður,“ segir Alfreð Finnbogason, landsliðsframherji í knattspyrnu, um hvort það hafi haft einhver áhrif á hann sem leikmann að vera orðinn tveggja barna faðir.

Íslenska landsliðið er orðið afar reynslumikið og að sama skapi er meðalaldur leikmanna hár en byrjunarliðið í sigrinum gegn Andorra í gærkvöld var til að mynda að mestu skipað leikmönnum á fertugsaldri. Meðalaldur liðsins var yfir 30 ár þrátt fyrir að hinn 19 ára Arnór Sigurðsson fengi tækifæri í liðinu. Alfreð tilheyrir gullkynslóðinni sem fór fyrir Íslands hönd á EM U21-landsliða í Danmörku árið 2011, kynslóð sem síðan hefur elst og dafnað og farið á tvö stórmót A-landsliða á síðustu þremur árum. Hann á nú tvö börn með Fríðu Rún Einarsdóttur, einni skærustu fimleikastjörnu sem Ísland hefur átt, en þau eignuðust son í byrjun árs og áttu fyrir unga dóttur.

„Aðallega er það þannig að við það að verða faðir þá verður maður ábyrgðarfyllri,“ sagði Alfreð, spurður um hvort föðurhlutverkið hefði einhverju breytt í fari hans sem leikmanns, en mbl.is ræddi við hann í vikunni í aðdraganda leikjanna við Andorra og við Frakkland á mánudag.

„Þegar maður verður ábyrgðarfyllri sem persóna þá verður maður líka ábyrgðarfyllri sem leikmaður. Ég held að það hafi bara mjög jákvæð áhrif á mann sem leikmann að hafa ákveðna festu og rútínu, þannig að ég hef bara jákvæðar upplifanir af því að verða faðir. Núna er annað barn komið, strákur, og þá er pressa á mér að gera góða hluti svo ég geti verið með einhverjar bransasögur þegar hann byrjar í fótboltanum, og kennt honum eitthvað þegar hann verður eldri,“ sagði Alfreð og glotti. Hann getur meðal annars rifjað upp þegar hann skoraði fyrsta HM-markið í sögu Íslands, gegn Argentínu. En er þá búið að ákveða hvort að krakkarnir feti í fótspor mömmunnar í fimleikunum eða pabbans í fótboltanum?

„Það verður kannski bara 50/50 svo allir séu sáttir. Nei, nei, það er nú ekki alveg komið svo langt, en það væru ef til vill góð skipti að annað færi í fimleika en hitt í fótbolta,“ sagði Alfreð léttur í bragði.

Eftir sigur í Andorra í gærkvöld hélt íslenski hópurinn til Parísar í dag en þar mætir liðið heimsmeisturum Frakka á mánudagskvöld. Alfreð, sem er nýstiginn upp úr meiðslum, lék 70 mínútur gegn Andorra og ætti að vera klár í slaginn gegn Frakklandi.

mbl.is