Frakkar yfirburðalið í heiminum

Gylfi Þór sækir að Benjamin Pavart í kvöld.
Gylfi Þór sækir að Benjamin Pavart í kvöld. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson ræddi við blaðamann mbl.is eftir 4:0-tapið gegn Frökkum á útivelli í undankeppni EM karla í fótbolta í kvöld. Erik Hamrén landsliðsþjálfari stillti upp fimm manna vörn og einum framherja í leiknum. 

„Það var ákveðið að spila með þrjá hafsenta í dag, þar sem við vissum að þeir yrðu mikið með boltann. Þeir eru góðir fram á við og með frábærar hreyfingar án boltans. Þeir spila boltanum vel á milli sín, en þetta gekk ekki alveg í dag,“ sagði Gylfi, sem var ekki of ósáttur við landsleikjahléið, þrátt fyrir tapið í kvöld. Ísland vann Andorra á föstudag og er því með þrjú stig eftir tvo leiki. 

„Það var skyldusigur á móti Andorra, en þegar við komum hingað bjóst enginn við að við myndum sækja einhver stig. Þetta er yfirburðarlið, ekki bara í riðlinum heldur í heiminum í dag. Við vissum að við þurftum að vinna Andorra og svo taka sex stig í sumar, það eru leikir sem við þurfum að vinna,“ sagði Gylfi og á þá við leiki við Tyrkland og Albaníu í byrjun júní á Laugardalsvelli. 

„Við þurfum að vinna Tyrkland og Albaníu heima og taka svo einhver stig af þeim úti. Þótt við töpuðum 4:0 í dag, þá tókum við þessi þrjú stig sem við áttum að taka. Við erum í ágætum málum ef við vinnum þessa leiki í sumar.“

Gylfi Þór virtist finna fyrir meiðslum fyrir leik, en þrátt fyrir það spilaði hann allan leikinn. „Ég var aldrei tæpur. Ég fékk högg í síðasta leik og verkurinn var ekki alveg farinn. Ég tók verkjatöflur, en síðan sáu adrenalínið og verkjatöflurnar um að ég kláraði leikinn,“ sagði Gylfi Þór. 

mbl.is