Því miður orðið að einhverju stórmáli

Björgvin Stefánsson gæti verið á leið í langt bann vegna …
Björgvin Stefánsson gæti verið á leið í langt bann vegna ummæla sinna. mbl.is/Hari

„Af hverju kom það einhverjum á óvart að hann byrjaði? Landsliðsfyrirliðinn okkar hraunaði yfir Albaníu hérna um árið og hann byrjaði næsta leik og fékk ekkert bann,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, brúnaþungur þegar hann ræddi við fjölmiðla um Björgvin Stefánsson og ummæli hans í lýsingu á leik Hauka og Þróttar sem komin eru inn á borð aganefndar KSÍ.

Björgvin var í liði KR í kvöld í 1:0-sigrinum á Víkingi R. í Pepsi Max-deildinni en hann gæti átt yfir höfði sér leikbann fyrir kynþáttaníð í fyrrnefndri lýsingu á Youtube-rás HaukaTV. „Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin í útsendingunni. Búast má við að aganefnd taki málið fyrir á þriðjudag.

„Það er fullt af fólki sem hefur gert mistök. Björgvin gerði mistök og áttaði sig á þeim alveg um leið, og baðst fyrirgefningar alveg um leið. Hann sagði þetta í einhverju gríni og reyndi að vera fyndinn en það misheppnaðist hrapallega. Úr þessu var gert mikið mál í fjölmiðlum þar sem menn eru að reyna að fá fullt af „tikkum“ á tölurnar. Auðvitað fordæmir maður allt svona. Björgvin, okkar leikmaður, á ekki að gera svona. En hann var þarna á eigin vegum, ekki í búningi KR og ekki á leikskýrslu. Hann var að lýsa fyrir sitt gamla uppeldisfélag, fenginn til þess af því að hann þykir hnyttinn í tilsvörum og fyndinn, og hann var að reyna það í þessu tilfelli en það misheppnaðist svona hrikalega. Því miður er þetta orðið að einhverju stórmáli og ég vona bara að því ljúki sem fyrst,“ sagði Rúnar. En er ekki um grafalvarlegt mál að ræða?

Björgvin þarf að átta sig á að nú er hann í einu stærsta félagi landsins

„Ég var að segja það. Þetta er grafalvarlegt og við KR-ingar lítum þetta mjög alvarlegum augum og erum búnir að ræða við Björgvin. En mönnum geta orðið á mistök í lífinu. Það verður þá að reyna að kenna mönnum hvernig lífið virkar, og að þeir verða að passa sig, sérstaklega þegar þeir eru orðnar opinberar persónur eins og hann er. Hann verður að átta sig á því að hann er ekki lengur leikmaður Hauka, með allri virðingu fyrir Haukum, heldur kominn í eitt af stærstu félögum landsins og þar er fylgst með mönnum og menn verða að passa sig. Hann er bara að læra. Hann gerði mistök og baðst afsökunar um leið. Við verðum að vona að hann læri,“ sagði Rúnar, en Björgvin hafði ekki látið þjálfarann né aðra hjá KR vita að hann hygðist lýsa umræddum leik.

Rúnar Kristinsson fékk Björgvin Stefánsson frá Haukum haustið 2017.
Rúnar Kristinsson fékk Björgvin Stefánsson frá Haukum haustið 2017.

Spurður nánar út í þau ummæli sín að mikið væri búið að gera úr málinu sagði Rúnar:

Get ekki séð hvernig á að dæma Björgvin í bann

„Auðvitað er þetta eitthvað sem við eigum aldrei að láta út úr okkur. En hann er búinn að biðjast afsökunar. Það að einhver taki þetta upp á vídjó og birti þetta á Twitter, þar sem allir sjá þetta, þannig að þið fjölmiðlar getið tekið þetta upp, það gerir málið ennþá stærra. Ég er ekki að segja að við eigum að fara í grafgötur með þetta, eða fela þetta, það þarf að ræða þetta en mér finnst kannski dálítið mikið gert úr þessu. Þetta er grafalvarlegt þrátt fyrir það og hann verður að læra sína lexíu.“

En hvað gera KR-ingar ef Björgvin verður úrskurðaður í langt bann?

„Þá kemur bara einhver annar leikmaður inn í byrjunarliðið. Það er búið að dæma í tveimur álíka málum, þar sem talað var um aðra hluti sem eru ekkert ómerkilegri en þeir sem hann talaði um, og það var ekkert dæmt í þeim. Engin bönn, ekki neitt. Ég get ekki séð hvernig á að dæma Björgvin í bann fyrir það sem hann hefur gert. Hann er búinn að biðjast afsökunar, ég endurtek það enn á ný, og ég held að við verðum að leyfa honum að halda áfram með sitt líf og að leyfa fótboltanum að spilast og spá frekar í leikina og úrslitin, heldur en að velta okkur upp úr einhverju sem að menn missa út úr sér,“ sagði Rúnar, sem vildi lítið tjá sig um það hvað honum þætti hæfileg refsing fyrir Björgvin:

Ætla menn að nota KR og Björgvin sem einhvern blóraböggul?

„Það er ekki mitt að dæma um það. Það er aganefndar KSÍ. Ég þarf ekki að hafa skoðun á þessu. Ég er ekki lögfræðimenntaður og ekki að spá í hvað menn þurfa að fá mikla refsingu fyrir einhverja hluti sem þeir segja, ég tala nú ekki um þegar þetta er sagt í fljótfærni í beinni útsendingu í lýsingu á fótboltaleik, þar sem menn eru að gantast og hafa gaman. Þá geta menn kannski því miður misst ljót orð út úr sér,“ sagði Rúnar, og ítrekaði að dæmi væru um að menn létu út úr sér ljót ummæli, eins og Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði hefði gert á sínum tíma. Rúnar vísaði líka til tveggja mála á þessu ári, þegar Pétur Viðarsson úr FH öskraði „ertu fokking þroskaheftur?“ á aðstoðardómara í leik gegn ÍA, og Þórarinn Ingi Valdimarsson úr Stjörnunni lét fordómafull ummæli falla í garð Ingólfs Sigurðssonar í leik gegn Leikni.

„Hvenær ætlum við að taka á þessu? Eigum við að byrja á því núna? Eigum við að taka Björgvin núna og aflífa hann? Af hverju byrjuðum við ekki á því fyrir 2 vikum eða 3 árum? Ætla menn að nota KR og Björgvin Stefánsson sem einhvern blóraböggul, eða ætla menn að fara eftir því sem á undan er gengið og sleppa mönnum við leikbönn. Það er ekki mitt að dæma, og það er aganefndarinnar að velja,“ sagði Rúnar.

mbl.is