Birkir ekki rætt við Villa: „Við sjáum til“

Birkir Bjarnason fyrir æfingu landsliðsins í dag.
Birkir Bjarnason fyrir æfingu landsliðsins í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, segir það langþráð að komast út á völl og spila eftir að hafa nánast ekkert leikið með félagsliði sínu, Aston Villa, á þessu ári. Hann segir formið þó vera gott og hann er til í slaginn með landsliðinu í komandi leikjum gegn Albaníu og Tyrklandi í undankeppni EM 8. og 11. júní á Laugardalsvelli.

„Það vita allir að þetta eru rosalega mikilvægir leikir. Þótt við höfum byrjað vel með þremur stigum gegn Andorra og Frakklandi, þá vitum við að við þurfum að ná í stig núna og helst sex. Það er mjög gott að geta spilað hérna heima. Við erum yfirleitt góðir hérna á sumrin og vonandi getum við haldið því áfram,“ sagði Birkir við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í dag.

Birkir kom aðeins við sögu í tveimur leikjum Villa frá 19. janúar, hvernig er standið á honum?

„Standið er bara fínt, svipað og fyrir síðustu leiki. Ég hef ekki spilað mikið síðan í janúar en hef æft mjög vel og mikið extra svo ég er í toppstandi,“ sagði Birkir, en veit hann hvað  framtíð hans ber í skauti sér?

„Ég á eitt ár eftir af samningnum og svo sjáum við bara til hvað gerist í sumar. Ég er alla vega mjög ánægður þarna – nema það náttúrulega að hafa ekki spilað mikið síðan í janúar. Við verðum bara að sjá til hvað gerist, en ég hef ekkert rætt við klúbbinn enn þá,“ sagði Birkir.

Sjáum til hvernig staðan verður eftir sumarið

Aston Villa komst upp úr ensku B-deildinni í vor og spilar í úrvalsdeildinni næsta vetur.

„Ég fór þangað því þetta er frábær klúbbur og það væri ekki leiðinlegt að spila í úrvalsdeildinni. Ég væri mjög til í að vera þarna og spila. En við sjáum til hvernig staðan verður eftir sumarið,“ sagði Birkir, sem kom frá svissneska liðinu Basel í janúar 2017.

Birkir kom við sögu í 17 deildarleikjum Aston Villa á leiktíðinni, 11 þeirra í byrjunarliði, en nánast ekkert eftir áramót eins og áður sagði. Hefur það haft áhrif á Birki að hafa verið svona úti í kuldanum hjá Villa í vetur?

„Nei nei. Ég hef verið í þessari stöðu áður og veit hvernig ég á að koma mér úr henni. Vonandi get ég gert það,“ sagði Birkir Bjarnason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka