Viljum gera Laugardalsvöll aftur að vígi

Erik Hamrén og Aron Einar Gunnarsson á fréttamannafundi í morgun.
Erik Hamrén og Aron Einar Gunnarsson á fréttamannafundi í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Erik Hamrén landsliðsþjálfari sátu fyrir svörum á fréttamannafundi fyrir leik íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Albaníu í undankeppni EM á Laugardalsvelli á morgun.

Hamrén gaf það upp að allir leikmenn taki þátt í æfingunni sem hefst nú fyrir hádegið, meðal annars Jóhann Berg Guðmundsson sem hefur verið meiddur. Hans stand verður nánar metið eftir æfinguna, og þá mun Hamrén jafnframt ákveða hverjir sitja hjá í leiknum á morgun.

Hamrén sagði það ákveðið áhyggjuefni að vita ekki hvernig Albanía mun spila, en liðið er með nýjan þjálfara. Hann treysti hins vegar leikmönnum sínum til þess að aðlagast fljótt og örugglega á vellinum.

Aron Einar sagði að það væri mjög góður andi í hópnum, en það sé nauðsynlegt að ná í þrjú stig upp á sjálfstraustið í liðinu að gera. „Við viljum gera Laugardalsvöll aftur að okkar vígi. Við viljum fara að vinna þessa leiki hérna heima, fá áhorfendur með aftur og fylla völlinn. Það skiptir okkur miklu máli,“ sagði Aron Einar.

Hann var jafnframt spurður að því hvað honum fyndist um það að ekki sé uppselt á leikinn á morgun.

„Áhugi er samkvæmt úrslitum og auðvitað viljum við fylla völlinn og hafa alla með okkur í liði. En það er undir okkur komið. Það væri frábært að fá fullan völl og stemninguna sem hefur skilað okkur þessum árangri. Við þurfum á fólkinu að halda með okkur í liði. Þegar við stöndum saman þá gerast óvæntir hlutir,“ sagði Aron Einar.

Hér að neðan má sjá beina textalýsingu frá fundinum frá blaðamanni mbl.is á staðnum.

Blaðamannafundur KSÍ opna loka
kl. 10:45 Textalýsing Þá segjum við þessu lokið héðan úr Laugardalnum í bili. Við minnum á landsleikinn á morgun sem hefst klukkan 13 og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu á mbl.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert