Er sú besta með Keflavík?

Natasha Anasi átti frábæran leik með liði Keflavíkur
Natasha Anasi átti frábæran leik með liði Keflavíkur mbl.is/Kristinn Magnússon

Ef svo heldur fram sem horfir verður botnbaráttan í úrvalsdeild kvenna í fótbolta, sem kennd er við Pepsi Max, ekki síður spennandi en einvígi Breiðabliks og Vals um Íslandsmeistaratitilinn.

Deildin virðist vera að skiptast í þrennt þar sem Þór/KA gæti fengið keppni frá ÍBV og mögulega Stjörnunni um þriðja sætið, en hin fimm liðin, Selfoss, HK/Víkingur, Fylkir, Keflavík og KR, virðast geta unnið hvert annað hvenær sem er.

Eins merkilegt og það er, þegar deildin er svona jöfn, hefur ekki einn einasti leikur í fyrstu sex umferðunum endað með jafntefli.

Keflavík er tvímælalaust lið sjöttu umferðar. Nýliðarnir höfðu tapað fyrstu fimm leikjum sínum, á fyrsta ári Keflavíkur í deildinni í heilan áratug, og lánið hafði satt best að segja ekki leikið við Suðurnesjastúlkurnar. Þær hefðu hæglega getað krækt í stig í þremur af fyrstu fimm leikjunum. En í Vesturbænum sprungu þær hreinlega út og gjörsigruðu KR 4:0. Keflavík er með í sínum röðum hina öflugu Natöshu Anasi, og KR réð ekkert við hana í vítateig sínum þar sem Natasha skoraði tvö skallamörk. Farið er að ræða um hana sem besta leikmann deildarinnar í ár, a.m.k. úr hópi varnarmanna.

Keflavíkurliðið sýndi í leiknum að það er til alls líklegt og getur lagt hvaða lið sem er á góðum degi.

Staða KR er hinsvegar orðin slæm. Vesturbæjarliðið er með mikla reynslu í sínum hópi en er þegar búið að tapa fyrir þremur af keppinautunum í neðri hluta deildarinnar og virðist eiga erfiða baráttu framundan.

Sjá greinina í heild á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag þar sem útnefndur er leikmaður 6. umferðar, besti ungi leikmaður 6. umferðar og birt úrvalslið Morgunblaðsins úr umferðinni ásamt stöðunni í M-gjöfinni

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert