Fyrirliðinn hrósar ungu stelpunum í hástert

Sara Björk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Glódís …
Sara Björk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir voru allar í byrjunarliðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er svolítið svekkjandi, ég hefði viljað vinna,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir markalaust jafntefli í vináttuleik gegn Finnum í dag. Leikið var í Turku og var um að ræða fyrri vináttuleik þjóðanna af tveimur sem mætast aftur á mánudaginn.

Íslenska liðið hefur oft spilað betur en í leiknum og spilamennskan var nokkuð kaflaskipt hjá liðinu. Hvað segir Sara um það?

„Tímasetningin á pressunni var ekki nógu góð, það hefði verið betra að fara í lágpressu og bíða eftir tækifærinu. En við þurfum að halda betur í boltann þegar við vinnum hann, það hefur verið vandamál hjá okkur í gegnum tíðina að halda í boltann. Mér finnst við eiga mikið inni og við erum að spila vel á köflum. Við þurfum bara að gera meira af því,“ sagði Sara Björk.

Hún segir það sérstaklega jákvætt hvernig ungu leikmennirnir í hópnum hafa komist inn í hlutina, en Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir spilaði meðal annars sinn fyrsta landsleik í dag.

„Ungu leikmennirnir fengu sénsinn að sýna sig og sanna og gerðu það. Það er ótrúlega jákvætt og gott fyrir hópinn, sem breikkar hann mjög. Það er mjög jákvætt og þær sem komu inn á voru mjög ferskar,“ sagði Sara Björk.

Mikilvægir leikir fyrir haustið

Ísland og Finnland mættust síðast fyrir áratug, hvernig fannst Söru finnska liðið?

„Það er á uppleið og eru með góða leikmenn. Maður hefur ekki séð mikið frá þeim síðustu ár, en eru að bæta sig eins og margar þjóðir og eru á uppleið. Þær eru með gott lið,“ sagði Sara Björk, en næsti leikur fer fram í Espoo, sem er rétt hjá liðshóteli Íslands, á mánudaginn.

Þessir tveir vináttuleikir eru síðustu leikirnir áður en undankeppni Evrópumótsins hefst í lok ágúst.

„Það er mikilvægt að taka þessa daga, koma hópnum saman og sjá hvernig standið er á öllum. Það er allt mjög jákvætt sem ég hef séð. Ég hafði ekki séð mikið til ungu leikmannanna og mér finnst frábært hvernig þær eru að koma inn í þetta, eru með sjálfstraust og mikla hæfileika,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert