Ungur Skagamaður til FC Köbenhavn

Hákon handsalar samninginn við FC Köbenhavn.
Hákon handsalar samninginn við FC Köbenhavn. Ljósmynd/ÍA

ÍA hefur gengið frá sölu á Hákoni Arnari Haraldssyni til danska knattspyrnuliðsins FC Köbenhavn að því er fram kemur á heimasíðu ÍA í dag.

Hákon er 16 ára gamall, hefur spilað með yngri flokkum ÍA og komið inn í hóp meistaraflokks félagsins í úrvalsdeildinni í ár. Hann hefur spilað með U17 og U16 ára landsliðunum, alls 11 leiki og hefur í þeim skorað þrjú mörk. Samningur hans við FC Köbenhavn er til þriggja ára.

Hákon er bróðir Tryggva Hrafns Haraldssonar sem leikur með meistaraflokki ÍA en Tryggvi reyndi fyrir sér í atvinnumennsku þegar hann gekk í raðir sænska liðsins Halmstad og lék með því 2017-18. Hann sneri aftur til Skagamanna fyrir þetta tímabil.

Foreldrar þeirra Hákons og Tryggva eru Haraldur Ingólfsson og Jónína Víglundsdóttir en þau eru bæði margfaldir Íslands- og bikarmeistarar með ÍA.

mbl.is