Breytt staða hjá HK og KA

Birkir Valur Jónsson sækir að Hallgrími Mar Steingrímssyni í leik …
Birkir Valur Jónsson sækir að Hallgrími Mar Steingrímssyni í leik HK og KA í Kórnum í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Staða HK og KA í úrvalsdeild karla í fótbolta hefur heldur betur breyst síðustu daga og vikur. Nýliðarnir úr Kópavogi virtust framan af sumri ekki eiga mikla möguleika á að halda sér í deildinni en KA þótti líklegt til að komast í baráttu um Evrópusæti.

En eftir sigur HK, 2:1, í dramatískum leik í Kórnum í gær er Kópavogsliðið komið upp í áttunda sæti í fyrsta sinn á tímabilinu, eftir þrjá sigra í síðustu fjórum leikjum. Á meðan hefur KA sigið stöðugt neðar, tapaði fjórða leik sínum í röð og gæti ef allt fer á versta veg setið í fallsæti þegar umferðinni lýkur í kvöld. Akureyrarliðið er í það minnsta komið í fallbaráttu upp fyrir haus eftir þennan ósigur.

Leikurinn var jafn og skemmtilegur enda mættust þarna tvö lið sem geta spilað virkilega góðan fótbolta þegar sá gállinn er á þeim. Staðan var 1:1 lengi eftir mörk í fyrri hálfleik. Björn Berg Bryde kom HK yfir eftir hornspyrnu en Hallgrímur Mar Steingrímsson jafnaði úr vítaspyrnu. KA tók nánast völdin þegar um fimmtán mínútur voru eftir og gerði harða hríð að marki HK. Nýliðarnir stóðu óveðrið naumlega af sér, sluppu fyrir horn þegar Elfar Árni Aðalsteinsson skaut yfir mark þeirra úr dauðafæri, og á 84. mínútu skoraði hinn 16 ára gamli Valgeir Valgeirsson sigurmarkið með stórglæsilegu skoti frá vítateig í kjölfarið á hornspyrnu.

Sjá allt um leikina í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert