Sáttur gegn einu besta liði á Íslandi

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, á hliðarlínunni í dag.
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Já ég get alveg tekið þetta stig en ég er fyrst og fremst ánægður með frammistöðuna,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari KA eftir markalaust jafntefli við KR í 18. umferð Pepsi-Max deildar karla í knattspyrnu fyrir norðan í dag.

„Það var gott jafnvægi í okkar leik. Við vorum þéttir varnarlega, áttum góðar rispur og fengum góða möguleika sóknarlega. Andstæðingurinn er einn sá besti á Íslandi í dag þannig ég er sáttur með stigið.“

Leikurinn í dag var mjög lokaður og ekki mikið um færi. Heimamenn náðu ekki skoti á markið en KR-ingar náðu aðeins einu skoti. Aðspurður um það sagði Óli:

„Þetta var mjög lokaður leikur og í miklu jafnvægi. Við vildum hafa það þannig. Við erum að vinna okkur neðan frá í töflunni og þess vegna þarf grunnurinn að vera öflugur varnarleikur. Við spiluðum bara mjög vel. Mér fannst við geta gert betur úr ákveðnum stöðum í seinni hálfleik en jafntefli er sanngjörn niðurstaða.“

KA-menn byrjuðu leikinn rólega en þegar leið á urðu þeir sterkari aðilinn í leiknum. 

„Þegar við erum að byrja leikinn fannst mér við aðeins svifaseinir og pínu feimnir við þá en svo unnum við okkur inn í leikinn. Við sýndum það í dag hversu öflugir við getum verið og við séum á réttri leið. Við fórum í erfiðan kafla um miðbik sumars og höfum verið að vinna okkur jafnt og þétt útúr því, við höfum einungis tapað einum af síðustu sex leikjum.“

Næsti leikur KA-manna er á móti Grindvíkingum sem eru ekki langt frá KA í töflunni. Aðspurður um það verkefni sagði Óli: 

„Það verður erfiður leikur og við þurfum að eiga jafn góða ef ekki betri frammistöðu ef við viljum fá eitthvað út úr því verkefni.“ 

mbl.is