Höfum endalausa trú á okkur

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir með boltann í kvöld.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum alltaf trú á að við getum unnið alla leiki og við förum í þá til að vinna. Við höfum endalausa trú á okkur,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún tryggði Breiðabliki glæsilegan 3:2-sigur á Tékklandsmeisturum Sparta Prag í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. 

„Þetta var mjög skemmtilegur leikur, bæði að spila og örugglega að horfa á hann líka. Það var mikil barátta á milli jafnra liða og það var gaman að taka þetta í restina,“ sagði Karólína. Staðan í hálfleik var 2:1, Sparta Prag í vil, en Breiðablik skoraði tvö mörk á tveimur mínútum skömmu fyrir leikslok. 

„Við töluðum um að halda áfram að sækja á þær því þær nenntu ekki mikið að verjast. Við ákváðum að keyra á þær og bæta aðeins varnarleikinn.“

Hún segir Blikakonur vera með betra lið, nái þær að spila sinn leik. „Klárlega, en við erum ekki búnar að vinna neitt. Við þurfum að eiga enn betri leik út í Prag til að fara áfram. Ef við spilum okkar leik munum við klárlega nýta okkar möguleika.“

Boltinn virtist vera lengi á leiðinni í netið í marki Karólínu, en hún náði góðu skoti á markið úr teignum eftir undirbúning Hildar Antonsdóttur. 

„Hildur Antons var með fimm menn í sér og lagði hann út. Ég hugsaði bara um að skjóta á markið. Ég hitti hann vel með ristinni og völlurinn var blautur. Það var sætt að sjá hann inni,“ sagði Karólína. 

mbl.is