Sumarið reynst okkur erfitt

Rakel Logadóttir og lærikonur hennar í HK/Víkingi eru fallnar í …
Rakel Logadóttir og lærikonur hennar í HK/Víkingi eru fallnar í 1. deildina eftir tap gegn ÍBV í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rakel Logadóttir, þjálfari HK/Víkings, var vonsvikin eftir leik liðsins gegn ÍBV í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Vestmannaeyjum í kvöld. Ástæðan er sú að HK/Víkingur féll úr efstu deild en þær skrapa botninn með sjö stig eftir 16 umferðir, mikið hefur gengið á hjá liðinu í sumar.

„Það er erfitt að segja hvað fór úrskeiðis, við töpuðum allavega, það sem við lögðum upp með gekk ekki. Við vildum vera hærra á vellinum, reyna að nýta vindinn og skjóta svolítið á markið. Það gekk ekki í fyrri hálfleik og áttum við mjög slakan fyrri hálfleik. Við náðum að komast í gegnum hann eftir því sem leið á, seinni hálfleikurinn var síðan bara einnig slakur.“

HK/Víkingi hefur gengið gríðarlega illa að skora í deildinni, liðið hefur einungis skorað ellefu mörk.

„Þetta er aðallega það að við náum ekki að vera framar á vellinum, það gerði okkur erfitt fyrir. Planið var að vera ofarlega en það gekk illa, við reyndum að færa Fötmu (Fatma Kara) ofar á völlinn en henni tókst ekki að skora.“

ÍBV náði að setja þrjú mörk á stuttum tíma í síðari hálfleik, en það virtist myndast ákveðið vonleysi í liði gestanna við fyrsta markið.

„Það er eðlilegt þegar þú ert í svona stórum leik að hausinn detti aðeins niður, mér fannst við ná hausnum upp aftur og enda leikinn aðeins betur. Simone náði að skora og við hættum ekkert eftir það, sem ég er ánægð með.“

Fall HK/Víkings úr deildinni hefur legið í loftinu um nokkurt skeið, en liðið hefði verið í bullandi séns á að halda sæti sínu í deildinni með sigri í kvöld.

„Við vorum í raun aldrei fallnar fyrr en núna í dag, við héldum alltaf áfram og ætluðum að halda áfram að reyna. Markmiðið var að halda sér í deildinni og fallið kom ekki fyrr en núna. Nú erum við fallnar þegar tveir leikir eru eftir en við ætlum að klára tímabilið með sæmd.“

Rakel tók við liðinu um miðjan júlí þegar Þórhallur Víkingsson lét af störfum. Staðan var þá orðin slæm en liðið var með sex stig í næstneðsta sæti. Liðið fékk stig í fyrsta leik eftir þjálfaraskiptin en fékk ekki fleiri stig í næstu átta umferðum.

Linda Líf Boama fékk að fara frá HK/Víkingi fyrir leiktíðina og gekk hún til liðs við Þrótt, hún hefur raðað inn mörkum í Inkasso deildinni, hún er með 19 mörk í 16 leikjum þar. Rakel segir að hún sé leikmaður sem liðið hefði þurft á að halda.

„Hún hefði það algjörlega, okkur vantar svona senter-týpu. Simone hefur ekki gert það sem hún þurfti að gera og náði ekki að skora, eins og við vildum, líkt og fleiri sem spiluðu hennar stöðu.“

Liðinu hefur gengið ágætlega varnarlega í nokkrum leikjum og ber þar helst að nefna leikinn gegn Breiðabliki þar sem Blikum tókst einungis að skora eitt mark. Mun Rakel halda áfram með liðið?

„Það kemur í ljós, ég er ekki búin að ákveða það, ég ætla að hugsa mig um aðeins,“ sagði Rakel en hún sér möguleika fyrir HK/Víking á því að komast upp í efstu deild strax aftur.

„Það er pottþétt hægt, það þarf að skoða leikmannamálin og allt það,“ sagði Rakel en það var mjög erfitt fyrir HK/Víking að missa Þórhall í júlí því með honum fóru dætur hans, Ísafold og Þórhildur. Þær hefðu hjálpað HK/Víkingi mikið á lokakaflanum.

„Við lendum einnig í meiðslum, lykilleikmenn, Arna (Eiríksdóttir) er búin að vera meidd í nánast allt sumar. Það eru ákveðin umskipti hjá okkur þegar hún meiðist. Fleiri leikmenn meiðast, við fáum Sólveig Larsen í skiptum fyrir miðjumann, Sólveig meiðist og það varð ótrúlega erfitt fyrir okkur þar sem við fengum í raun ekkert í staðinn fyrir miðjumann. Það er alls konar sem hefur ekki gengið upp hjá okkur þetta sumarið, sem hefur reynst okkur erfitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert