Yrði klárlega stærsti bikarinn fyrir mig

Annað hvort Davíð Þór Viðarsson úr FH eða Sölvi Geir ...
Annað hvort Davíð Þór Viðarsson úr FH eða Sölvi Geir Ottesen hjá Víkingi lyftir bikarnum í leikslok. mbl.is/Hari

„Það er spenna og tilhlökkun fyrir þessum stóra degi,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Víkingur mætir FH í bikarúrslitum í fótbolta á laugardaginn á Laugardalsvelli. 

„Við förum með það hugarfar í þennan leik að við ætlum okkur ekkert annað en sigur. Það hefur ekkert annað hvarflað að mér,“ sagði Sölvi. Margir leikmenn Víkings eru ungir og munu spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik, Sölvi hefur ekki áhyggjur af þeim. 

„Þeir eru klárir í þetta verkefni. Þeir hafa sýnt mikinn þroska á leiktíðinni. Það datt einn reyndur úr liðinu (Kári Árnason) en það er ákveðin reynsla í liðinu. Þetta snýst um að vera tilbúinn í leiknum og vera með rétt hugarfar.

Ætlum að fá dolluna heim í Fossvoginn

Reynslan getur verið mikilvæg, en þetta er stórt tækifæri og menn verða að vera gíraðir og klárir þegar kallið kemur. Við höfum spilað tvisvar á móti FH í deildinni þar sem okkur hefur gengið ágætlega. Við ætlum að gera enn betur í þessum leik og fá dolluna heim í Fossvoginn,“ sagði Sölvi sem finnur til með Kára Árnasyni, en ólíklegt er að Kári spili leikinn vegna meiðsla sem hann varð fyrir í landsleik gegn Albaníu á þriðjudag. 

„Fyrsta sem ég hugsaði var að þetta væri leiðinlegt fyrir hann. Hann er grjótharður Víkingur og sennilega ekkert viljað meira en að spila leikinn og vinna dolluna. Ég fann til með honum. Við erum hins vegar með breiðan hóp og það kemur maður í manns stað. Þeir eru tilbúnir að leysa hann af hólmi ef hann getur ekki spilað leikinn.“

Sölvi varð sænskur bikarmeistari með Djurgården 2004 og 2005, danskur bikarmeistari 2012 með FC Kaupmannahöfn og kínverskur bikarmeistari með Jiangsu Sainty árið 2015. Hann segir bikar með uppeldisfélaginu skipta meira máli. 

„Það myndi þýða gríðarlega mikið. Ég hef orðið bikarmeistari fjórum sinnum erlendis, en þetta yrði klárlega stærsti bikarinn fyrir mig,“ sagði Sölvi. 

mbl.is