Við hreinlega völtuðum yfir þá

Sölvi Geir Ottesen lyftir bikarnum í kvöld.
Sölvi Geir Ottesen lyftir bikarnum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sölvi Geir Ottesen átti glæsilegan leik í vörninni hjá Víkingi sem hafði betur gegn FH í úrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld, 1:0. Sölvi Geir kom til Víkings fyrir síðasta sumar eftir langan feril sem atvinnumaður. Hann vann fjóra bikartitla sem atvinnumaður en sá sem vannst í kvöld var sá sætasti á ferlinum. 

„Þetta er langsætasti titillinn sem ég hef unnið. Þetta er með uppeldisfélaginu mínu og í kringum alla fjölskylduna og vini. Þetta þýðir svo mikið fyrir strákana, það eru margir uppaldir Víkingar hérna. Þetta er langsætasti og skemmtilegasti bikar sem ég hef unnið," sagði Sölvi sem segir sigurinn verðskuldaðan. 

„Maður er svo einbeittur í leiknum sjálfum og núna þegar ég loksins get farið að líta til baka þá klárlega fannst mér við eiga skilið að vinna. Við vorum með góð tök á þeim alls staðar á vellinum. Þetta var mjög gott leikskipulag sem við settum upp fyrir leikinn. Við trúðum á okkar skipulag og hreinlega völtuðum yfir þá. Við vildum þennan sigur miklu meira en þeir og það skein í gegn í leiknum.“

FH-ingar urðu fljótt pirraðir í leiknum á meðan Víkingar héldu haus og unnu verðskuldaðan sigur. 

„Ég hugsa að pirringurinn hjá þeim hafi komið því þeir spiluðu ekki betur en þeir gerðu. Við spiluðum okkar leik og spiluðum vel í leiknum. Þar að leiðandi höfðum við enga ástæðu til þess að pirrast. Við vorum einbeittir á að ná eina markmiðinu í dag; að vinna þennan fokking bikar,“ sagði Sölvi Geir ákveðinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert