Grindavík fallið þrátt fyrir jafntefli

Bjarni Ólafur Eiríksson tæklar fyrir Marino Axel Helgason í fyrri …
Bjarni Ólafur Eiríksson tæklar fyrir Marino Axel Helgason í fyrri leik liðanna í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þrátt fyrir hetjulega baráttu náðu Grindvíkingar aðeins 2:2 jafntefli við Val suður með sjó í dag og eitt stig er ekki nóg til að bjarga þeim frá falli þegar leikin var 21. og næstsíðasta umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

Menn voru rétt farnir að fóta sig þegar Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals skallaði boltann á 15. mínútu rétt utan vítateigs og boltinn fleytti kerlingar að marki Grindvíkinga, markmaður þeirra var ekki vel á verði og boltinn skoppaði milli fóta hans. Heimamenn voru fljótir að jafna sig, náðu undirtökunum og Sigurður Bjartur Hallsson jafnaði metin á 40. mínútu eftir snarpa sókn Grindvíkinga. Síðustu tvær mínútur fyrri hálfleiks sluppu gestirnir fyrir horn eftir tvær harðar atlögur Grindvíkinga.

Snemma í síðari hálfleik meiddist Haukur Páll Sigurðsson fyrirliði Vals og varð að fara út af.  Grindvíkingar voru komnir á bragðið og á 69. mínútu kom Aron Jóhannsson Grindavík í 2:1 með laglegu skoti af vítateigslínunni. Á 81. mínútu fengu Valsmenn aukaspyrnu rétt utan vítateigs og skot Sigurðar Egils Lárussonar fór í gegnum varnarvegginn niður í hægra hornið. Grindvíkingar hertu á sókninni og Josip Zeba skallaði í stöng Vals á 87. mínútu. Valsmenn nýttu sér líka að Grindavík fór framar en þolanleg færi. Undir lokin var mikið at í markteig Valsmanna en eins og í fyrri hálfleik sluppu Valsmenn fyrir horn.

Grindvíkingar áttu skilið meira en stig úr þessum leik en fótboltinn er ekki alltaf sanngjarn og fallið er staðreynd. Valsmenn náðu sér ekki alveg á strik en nóg til jafnteflis, það dugar þeim samt skammt í deildinni en komust þó upp fyrir Víkinga í 9. sætið.

Grindavík 2:2 Valur opna loka
90. mín. Gunnar Þorsteinsson (Grindavík) á skot framhjá Utan teigs en yfir.
mbl.is