Rúnar heldur áfram og boðar kynslóðaskipti

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Rúnar Páll Sigmundsson hefur þjálfað karlalið Stjörnunnar í fótbolta frá árinu 2014 og unnið bæði Íslandsmeistaratitil og bikarmeistaratitil með uppeldisfélagi sínu. Stjörnumenn misstu af Evrópusæti á tímabilinu sem lauk í dag en Rúnar staðfesti við mbl.is að hann yrði áfram þjálfari Garðabæjarliðsins næstu árin þó að núgildandi samningur væri á enda.

„Hann rennur út núna í október en ég er búinn að komast að samkomulagi um að vera áfram. Það er komið samkomulag um nýjan samning og þó að ekki sé búið að skrifa undir neitt erum við sammála um að starfa saman næstu árin, þannig að við klárum það,“ sagði Rúnar eftir 3:2 sigurinn á ÍBV í dag, sem dugði ekki til að koma liðinu í Evrópusæti. Stjarnan endar í fjórða sætinu sem ekki gefur Evrópusæti í þetta skipti.

Hvað um leikmannahópinn, verða miklar breytingar á honum?

„Það er ekkert sem er tímabært að gefa út svona beint eftir leik, og ekkert sem er öruggt, enda leikmenn með samninga fram í miðjan október. Það verða ákveðin kynslóðaskipti, ég get ekkert sagt um einstaka leikmenn og við sjáum hvernig það þróast. Við erum að fá fullt af ungum og efnilegum strákum upp í félaginu, og svo er þetta oft þannig að þegar þú kemst ekki í Evrópukeppni þá missir þú af fullt af tekjum og það þarf að taka mið af því í okkar umhverfi.

En við ætlum að berjast áfram um titla á næsta ári. Við erum ekkert að gefast upp þó að við höfum ekki náð Evrópusæti. Við höfum staðið okkur vel undanfarin sex ár og nánast alltaf verið í Evrópukeppni. Það er ekkert sjálfgefið að ná þangað og stærri félög en við hafa misst af því. Við komum til baka og ætlum okkur aftur þangað á næstu árum,“ sagði Rúnar Páll.

Niðurstaðan í ár er fjórða sætið og 35 stig. Getið þið Stjörnumenn verið sáttir við það?

„Nei, það er ekki ásættanlegt. Við klúðuðum engu í dag eða gegn FH fyrir nokkrum umferðum. Við gerðum það fyrr í sumar þegar við töpuðum helling af stigum á móti liðunum sem féllu. Það máttu ekki gera ef þú ætlar að vera ofarlega á töflunni og það er það sem felldi okkur. Við spiluðum ekki illa í þessum leikjum, kannski ekki rétt að segja að við höfum verið óheppnir en vorum ekki nægilega beinskeyttir í þeim færum sem gáfust.

Síðan var fullt af mörkum dæmt af okkur á krítískum augnablikum, þú getur tínt til fullt af hlutum svona strax eftir mót, en heilt á litið fannst mér spilamennska liðsins ágæt á köflum. Ekki samt nóg til að vera áfram í Evrópukeppni. Okkur vantaði stöðugleika, við fengum 35 mörk á okkur, með leiknum í dag, og það er alltof mikið. Þetta eru flest mörk sem Stjarnan hefur fengið á sig síðan ég byrjaði að stýra liðinu. Það er bara ekki gott.“

Allir ánægðir ef FH hefði unnið bikarinn

„Auðvitað hefðu allir verið ánægðir ef FH hefði unnið bikarinn og við hefðum fengið Evrópusætið með því að enda í fjórða sæti. Það er svo stutt á milli í þessu. Eftir bikarúrslitin töpuðum við á móti FH og það var lykilleikur á heimavelli. Þá misstum við þá fram úr okkur.

En hvert svona tímabil er þvílíkur lærdómur fyrir okkur þjálfarana og fyrir félagið í heild sinni, og leikmennina, og við lærum af þessu,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.

mbl.is