Margfaldur Íslandsmeistari óvænt í ÍBV

Bjarni Ólafur Eiríksson skrifar undir samning við ÍBV.
Bjarni Ólafur Eiríksson skrifar undir samning við ÍBV. Ljósmynd/ÍBV

Knattspyrnudeild ÍBV komst í dag að samkomulagi við varnarmanninn Bjarna Ólaf Eiríksson. Bjarni, sem er 37 ára, semur við Eyjamenn út tímabilið 2020. Kemur hann til ÍBV frá Val. 

Bjarni lék sem atvinnumaður með Silkeborg í Danmörku á árunum 2005-2007 og með norska liðinu Stabæk frá 2010 til 2012. Þess fyrir utan hefur hann allan sinn feril spilað með Val, alls 337 keppnisleiki, þar sem hann skoraði 23 mörk. 

Bakvörðurinn, sem einnig getur leikið sem miðvörður, á 23 leiki fyrir A-landsliðið að baki. Bjarni spilaði 18 leiki með Valsmönnum síðasta sumar. Hann varð Íslandsmeistari með Val árin 2007, 2017 og 2018 og bikarmeistari 2005, 2015 og 2016. 

ÍBV leikur í 1. deildinni á næstu leiktíð, eftir að liðið féll úr deild þeirra bestu síðasta sumar. Ljóst er að félagið setur stefnuna beinustu leið upp aftur. 

mbl.is