Grindvíkingar styrkja sig

Sindri Björnsson í leik með ÍBV síðasta sumar.
Sindri Björnsson í leik með ÍBV síðasta sumar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Knattspyrnumaðurinn Sindri Björnsson er genginn til liðs við Grindavík en þetta staðfesti félagið á Facebook-síðu sinni í dag. Sindri skrifar undir tveggja ára samning við Grindvíkinga sem munu leika í 1. deildinni næsta sumar.

Sindri er 25 ára gamall miðjumaður en hann er uppalinn hjá Leikni Reykjavík í Breiðholti. Sindri á að baki 49 leiki í efstu deild með Leikni, Val og ÍBV þar sem hann hefur skorað þrjú mörk. Þá á hann að baki fimm landsleiki með U21 árs landsliði Íslands.

mbl.is