Sjötta erlenda knattspyrnukonan til Eyja

ÍBV mætir með mikið breytt lið til leiks á komandi …
ÍBV mætir með mikið breytt lið til leiks á komandi tímabili. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Grace Hancock, bandarísk knattspyrnukona, er komin til liðs við ÍBV og er lögleg með Eyjaliðinu frá og með morgundeginum.

Hancock er 23 ára gömul og leikur sem varnarmaður en hún lék á síðasta tímabili með Spokane Shadow frá Washingtonríki í bandarísku WPSL-deildinni, sem er næsta deild fyrir neðan atvinnudeildina NWSL.

Þar með hefur ÍBV fengið til liðs við sig sex erlenda leikmenn fyrir komandi keppnistímabil en fjórir erlendir leikmenn eru farnir ásamt því að Sigríður Lára Garðarsdóttir, Kristín Erna Sigurlásdóttir, Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir, Sesselja Líf Valgeirsdóttir og Clara Sigurðardóttir eru allar horfnar á braut.

mbl.is