Dagsetning komin á leik Íslands og Rúmeníu

Ísland mætir Rúmeníu í júní.
Ísland mætir Rúmeníu í júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leikur Íslands og Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins fyrir EM karla 2020 í knattspyrnu á að fara fram á Laugardalsvellinum fimmtudaginn 4. júní.

Knattspyrnusamband Íslands staðfesti þetta á vef sínum í dag en alþjóðlegu leikdagarnir í byrjun júní eru á tímabilinu 1. til 9. júní.

Liðið sem vinnur leikinn mætir annaðhvort Búlgaríu eða Ungverjalandi í úrslitaleik um sæti á EM fimm dögum síðar, þriðjudaginn 9. júní.

Þá kemur fram hjá KSÍ að til að fyrirbyggja misskilning verði keppnin áfram kölluð EM 2020, allavega fyrst um sinn, enda þótt lokakeppninni hafi verið frestað til sumarsins 2021.

Ísland átti að leika tvo vináttulandsleiki í þessu landsleikjahléi, gegn Færeyjum 3. júní og Póllandi 9. júní. Ef liðið hefði komist í gegnum umspilið átti það að leika fyrsta leik á EM gegn Portúgal í Búdapest 16. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka