Mútað til að byrja að æfa fótbolta á Hornafirði

Guðný Árnadóttir í leik með Val gegn Fylki síðasta sumar.
Guðný Árnadóttir í leik með Val gegn Fylki síðasta sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarinn Guðný Árnadóttir var sex ára gömul þegar foreldrar hennar þurftu hálfpartinn að múta henni til þess að mæta á fyrstu knattspyrnuæfingar sínar.

Það tók hana hins vegar eina til tvær æfingar að falla fyrir fótboltanum og síðan þá hefur hún skarað fram úr í þeirri íþrótt.

Guðný, sem verður tvítug í ágúst, var lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá Val á síðustu leiktíð og lék alla átján leiki liðsins í Pepsi Max-deildinni þegar liðið varð Íslandsmeistari í ellefta sinn, en hún er uppalin hjá Sindra á Hornafirði og gekk til liðs við Val frá FH eftir tímabilið 2018.

„Maður er búinn að bíða ansi lengi eftir því að hefja leik og það er því mikil spenna fyrir því að byrja tímabilið loksins,“ sagði Guðný í samtali við Morgunblaðið. „Við finnum ekki fyrir neinni pressu þannig séð, farandi inn í mótið sem Íslandsmeistarar. Markmiðið er fyrst og fremst að njóta þess að spila og hafa gaman af því sem við erum að gera. Persónulega hefur mér gengið vel hvað æfingar varðar og við fengum mjög gott æfingaplan frá þjálfarateyminu fyrir hvern einasta dag á meðan ekki var hægt að mæta á æfingar.

Við reyndum að hittast stundum tvær til þrjár saman til þess að létta lundina og æfa saman, sem var ágætis tilbreyting. Þar sem Valsliðið komst ekki í æfingaferð til Spánar eins og til stóð vegna ástandsins í heiminum ákváðum við svo að gera okkur glaðan dag á Suðurlandinu, þar sem við fórum meðal annars í fjallgöngu og hellaskoðun. Við gistum þar á Hótel Stracta, sem var mjög fínt, og þetta þjappaði hópnum klárlega saman fyrir komandi sumar.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »