Snýr aftur í Hafnarfjörðinn

Hörður Ingi Gunnarsson er genginn til liðs við FH frá …
Hörður Ingi Gunnarsson er genginn til liðs við FH frá ÍA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Hörður Ingi Gunnarsson er genginn í raðir úrvalsdeildarliðs FH en þetta kemur fram á Twitter-síðu félagsins í kvöld. Hörður Ingi, sem er 21 árs gamall og uppalinn í Hafnarfirði, kemur til félagsins frá ÍA á Akranesi þar sem hann hefur leikið frá því árið 2018.

Hörður Ingi hefur verið reglulega orðaður við endurkomu í Hafnarfjörðinn í allan vetur en Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri ÍA, útilokaði það að einhver leikmaður myndi yfirgefa Skagamenn fyrir Íslandsmótið í samtali við mbl.is fyrr í þessum mánuði.

Hörður Ingi á að baki 28 leiki í efstu deild með Víkingi Ólafsvík og ÍA. Í þessum 28 leikjum hefur hann skorað tvö mörk en hann getur spilað bæði sem vinstri og hægri bakvörður og þá getur hann einnig spilað á kantinum.

Leikmaðurinn hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands en hann á að baki 23 landsleiki fyrir yngri landsliðin, þar af tólf fyrir U21-árs landslið Íslands. „FH þakkar Skagamönnum fyrir fagleg vinnubrögð og óskar þeim alls hins besta í baráttunni í sumar,“ segir á Twitter-síðu FH-inga.
 

mbl.is