Elísabet í veikindaleyfi

Elísabet Gunnarsdóttir hefur þurft að taka sér ótímabundið veikindaleyfi.
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þurft að taka sér ótímabundið veikindaleyfi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir sem stýrt hefur úrvalsdeildarliði Kristianstad í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð hefur tekið sér ótímabundið veikindaleyfi en þetta kom fram í samtali hennar við staðarblaðið í Kristianstad, Kristiandstadsbladet. Elísabet hefur stýrt liði Kristianstad frá árinu 2009.

Elísabet er 43 ára gömul en hún er að glíma við taugasjúkdóm og gæti verið frá í nokkra mánuði vegna þessa. „Ég get ekki legið á höfðinu og á því í vandræðum með svefn,“ sagði Elísabet í samtali við Kristianstadsbladet. „Lítill svefn hefur mikil áhrif á mann en þetta gefur mér líka tækifæri til þess að bæta mig sem þjálfari.

Ég mun þess vegna reyna að nýta tímann sem best enda er ég ekki manneskja sem er þekkt fyrir það að setjast niður og gefast upp,“ sagði Elísabet ennfremur. Kristianstad heimsækir Gautaborg í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar þann 28. júní og munu aðstoðarþjálfararnir Johanna Rasmussen og Björn Sigurbjörnsson stýra liðinu í fjarveru Elísabetar.

mbl.is