Castillion á leið í Árbæinn?

Geoffrey Castillion skoraði 10 mörk í 19 leikjum með Fylkismönnum …
Geoffrey Castillion skoraði 10 mörk í 19 leikjum með Fylkismönnum í deildinni síðasta sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Knattspyrnumaðurinn Geoffrey Castillion gæti verið að snúa aftur til Fylkis en þetta staðfesti Hrafnkell Helgi Helgason, formaður meistaraflokksráðs Fylkis, í samtali við fótbolti.net í dag. Castillion lék með Fylkismönnum síðasta sumar, þá sem lánsmaður frá FH, en hann skoraði 10 mörk í 19 leikjum með Fylki í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Framherjinn stóði og stæðilegi er samningsbundinn Persib Bandung í Indónesíu en deildin þar er í ótímabundnu hléi vegna kórónuveirufaraldursins. „Hann hefur áhuga á að koma og spila. Honum leið vel hjá okkur í fyrra. Boltinn fór aðeins að rúlla og við höfum verið í samskiptum við félagið hans úti í Indónesíu. Við erum bjartsýnir á að þetta gangi eftir,“ sagði Hrafnkell Helgi í samtali við fótbolta.net.

Fari svo að Castillion gangi til liðs við Fylkismenn er afar ólíklegt að hann geti spilað með liðinu í upphafi móts þar sem hann þarf að öllum líkindum að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Castillion kom fyrst til landsins þegar hann samdi við Víking Reykjavík og lék með liðinu í efstu deild. Þaðan fór hann til FH 2018 en hann á að baki 53 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað 28 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert