Þróttarar fá liðsauka frá Noregi

Stephanie Ribeiro, nýjasti Þróttarinn, fagnar marki í bandaríska háskólaboltanum.
Stephanie Ribeiro, nýjasti Þróttarinn, fagnar marki í bandaríska háskólaboltanum. Ljósmynd/Valley Breeze

Þróttarar úr Reykjavík, sem eru nýliðar í úrvalsdeild kvenna í fótbolta, Pepsi Max-deildinni, hafa fengið leikheimild fyrir tvo erlenda leikmenn sína fyrir komandi tímabil.

Ástralski miðjumaðurinn Laura Hughes kemur frá Canberra United eins og áður hefur verið sagt frá og þá hefur miðjumaðurinn Stephanie Ribeiro frá Bandaríkjunum bæst í hópinn en hún hefur verið í norsku úrvalsdeildinni tvö undanfarin tímabil.

Ribeiro, sem er 25 ára gömul, hefur verið óheppin með meiðsli á ferlinum en eftir að hafa samið við Seattle Reign í bandarísku atvinnudeildinni árið 2017 missti hún af tímabilinu vegna meiðsla í hné.

Hún fór til Noregs og lék með Grand Bodö í úrvalsdeildinni þar í landi árið 2018. Þaðan fór hún yfir til Avaldsnes í sömu deild á síðasta ári en aftur var heppnin ekki með henni því hún missti aftur af heilu tímabili, nú vegna meiðsla í baki.

Þá hefur Þróttur fengið fyrrverandi leikmann sinn Sóleyju Maríu Steinarsdóttur lánaða frá Breiðabliki en hún lék níu leiki með Kópavogsliðinu í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Breytingar á liði Þróttar frá síðasta tímabili:

Komnar:
  6.6. Laura Hughes frá Canberra United (Ástralíu)
  6.6. Sóley María Steinarsdóttir frá Breiðabliki (lán)
  6.6. Stephanie Ribeiro frá Avaldsnes (Noregi)
22.2. Andrea Magnúsdóttir frá ÍA
22.2. Ísabella Anna Húbertsdóttir frá Val (lán)
22.2. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir frá Val (lán)
29.11. Rósa Pálsdóttir frá Fjölni

Farnar:
  3.6. Ester Lilja Harðardóttir í HK
19.5. Soffía Sól Andrésdóttir í Víking R.
22.2. Guðfinna Kristín Björnsdóttir í Gróttu
18.2. Lauren Wade í Glasgow City (Skotlandi)
16.10. Katrín Rut Kvaran í Val (úr láni)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert