Líklega síðasti leikurinn á ferlinum

Helgi Valur Daníelsson í baráttunni gegn Gróttumönnum í Árbænum í …
Helgi Valur Daníelsson í baráttunni gegn Gróttumönnum í Árbænum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Valur Daníelsson, leikmaður Fylkis í efstu deild karla í knattspyrnu, meiddist illa í leik Fylkis og Gróttu í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum. Helgi Valur var borinn af velli í síðari hálfeik en hann staðfesti í samtali við mbl.is í morgun að um fótbrot væri að ræða.

„Eins og staðan er núna þá er maður bara að bíða eftir því að komast í aðgerð,“ sagði Helgi Valur. „Ég er fjórbrotinn, semsagt tvöfalt brot á báðum beinum og alveg í sundur. Ég er samt sem áður furðugóður miðað við allt saman og vil núna bara drífa þessa aðgerð af og klára þetta.“

Helgi Valur verður 39 ára gamall hinn 13. júlí næstkomandi en hann segir líklegt að hann sé búinn að spila sinn síðasta leik á ferlinum. Þetta var hans 395. deildaleikur á tuttugu ára meistaraflokksferli og þar af sá 104. í efstu deild hér á landi.

„Það eru miklar líkur á því að þetta hafi verið síðasti leikurinn já. Ég er ekki að svekkja mig of mikið á þessu núna. Ég hef sloppið vel frá meiðslum yfir ferilinn þannig að kannski átti maður þetta bara hálfpartinn inni,“ bætti Helgi Valur léttur við í samtali við mbl.is í morgun.

Helgi Valur á að baki farsælan feril sem atvinnumaður en hann er uppalinn hjá Fylki í Árbænum. Hann lék með Peterborough United, Öster, Elfsborg, Hansa Rostock, AIK, Belenenses og AGF á ferlinum áður hann lagði skóna á hilluna árið 2015. Hann tók þá svo af hillunni árið 2018 og sneri aftur á völlinn með Fylki eftir að hafa flutt heim til Íslands sama ár.

Helgi Valur Daníelsson lék 33 A-landsleiki fyrir Ísland á sínum …
Helgi Valur Daníelsson lék 33 A-landsleiki fyrir Ísland á sínum ferli. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is