Þetta er ekki það sem við leggjum upp með

Almarr Ormarsson skallar boltann í leiknum í kvöld.
Almarr Ormarsson skallar boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Almarr Ormarsson, fyrirliði KA var ekki sáttur eftir 1:1 jafntefli við Fjölni á heimavelli í 6.umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu í dag.

„Eins og allir heimaleikir hjá okkur í sumar þá ætluðum við okkur að vinna og ég er ekki að segja að við höfum átt meira skilið endilega út úr leiknum en ég er alls ekki sáttur.“

En hvernig fannst Almari spilamennska liðsins í dag?

„Léleg, bara mjög döpur. Við þurfum að gera miklu betur en þetta það er alveg ljóst“

Leikurinn fór mikið fram í háloftunum í dag, sérstaklega í seinni hálfleik og mætti stundum ætla að liðið væri að reyna að leggja mikið upp úr löngum og háum sendingum. Aðspurður um upplegg liðsins sagði Almarr:

„Það kannski segir ýmislegt að það líti þannig út því það er alls ekkert uppleggið. Við æfum okkur að spila boltanum, viljum halda honum en einhvern veginn verðum við allt of stressaðir á boltanum og það endar með löngum boltum og þeir eru ekkert að hjálpa okkur neitt mikið.“

„Það er undir okkur leikmönnum komið að koma því inn á völlinn sem við erum að leggja upp með því þetta var ekki það.“

KA-liðið hefur nú leikið 5 leiki en eru einungis með þrjú stig í deildinni. Almarr segir það ekki vera nægilega góða stigasöfnun:

„Þrjú stig úr þessum fimm leikjum er bara lélegt. Ég sagði eftir síðasta leik að tvö stig væri allt of lélegt og þrjú stig er ekki mikið betra eftir fimm leiki. Við þurfum að fara að rífa okkur upp ef við ætlum að fara að gera eitthvað í þessari deild, það er nokkuð ljóst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert