Hún á að vita að þetta er ekki í boði

Alfreð Elías Jóhannsson fylgist með sínu liði í kvöld.
Alfreð Elías Jóhannsson fylgist með sínu liði í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þegar maður horfir á leikinn aftur eiga þær örugglega fleiri og betri færi í leiknum,“ viðurkenndi Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir markalaust jafntefli við Þrótt á útivelli í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld. 

Fengu bæði lið færi í leiknum og áttu góða kafla til skiptis. „Þetta var 50/50-leikur í fyrri hálfleik. Þegar fór að líða á seinni hálfleikinn vorum við með yfirhöndina en þær voru skeinuhættar fram á við. Við náðum bara ekki að gera nóg á móti þéttu og skipulögðu liði.“

Alfreð hrósaði Þrótturum í leikslok, en nýliðarnir hafa komið á óvart með góðri spilamennsku í sumar. „Það má alls ekki vanmeta þetta lið, þetta er mjög gott lið, vel skipulagt og vel þjálfað. Við viljum líka meina að við séum vel þjálfað, vel skipulagt og gott lið. Það sást alveg að við erum með gott lið, en þetta var ekki alveg okkar dagur.“

Hólmfríður Magnúsdóttir, reynslumesti leikmaður Selfoss, lét skapið hlaupa með sig í gönur undir lokin og fékk hún rautt spjald fyrir að sparka boltanum í burtu í pirringi, þegar hún var komin með gult spjald. „Það var skita hjá henni, hún á að vita að þetta er ekki í boði, en svona er þetta í hita leiksins. Hún var mjög þreytt, en þetta var skita hjá henni,“ sagði Alfreð ákveðinn. 

Hann segir liðið ekki vera að pirra sig yfir frammistöðunni í sumar til þessa, en Selfoss hefur aðeins unnið tvo leiki af fyrstu fimm. Gáfu leikmenn og þjálfarateymi það út fyrir mót að liðið ætlaði sér að verða Íslandsmeistari og er byrjunin því vonbrigði.

„Það þýðir ekkert að pirra sig yfir því sem er búið, við þurfum að læra af því sem hefur gerst í þessum leikjum. Við töpuðum ekki í dag og við verðum að virða stigið gegn góðu liði,“ sagði Alfreð. 

mbl.is