Arnar ráðinn þjálfari KA

Arnar Grétarsson er nýr þjálfari KA.
Arnar Grétarsson er nýr þjálfari KA. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Arnar Grétarsson hefur verið ráðinn knattspyrnuþjálfari KA í efstu deild karla en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins. Samningur Arnars við Akureyringa gildir út tímabilið en hann tekur við liðinu af Óla Stefáni Flóventssyni sem var látinn fara frá félaginu í dag en Óli Stefán tók við Akureyringum eftir tímabilið 2018.

Arnar, sem er 48 ára gamall, stýrði síðast liði Roeselare í belgísku B-deildinni en var sagt upp störfum hjá félaginu í nóvember á síðasta ári. Hann hefur verið án starfs síðan hann þjálfað Breiðablik á árunum 2015 til ársins 2017. Þá var hann aðstoðarþjálfari Blika 2009 og hann hefur einnig gegnt stöðu yfirmanns íþróttamála hjá bæði AEK í Grikklandi og Club Brugge í Belgíu.

Arnar á að baki farsælan feril sem leikmaður en hann lék 72 A-landsleiki fyrir Ísland og þá lék hann sem bæði atvinnumaður með AEK og Lokeren í Belgíu. Hallgrímur Jónasson verður áfram aðstoðarþjálfari KA að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu og Pétur Kristjánsson,  Branislav Radakovic og Halldór Hermann Jónsson verða einnig áfram í þjálfarateyminu.

Fyrsti leikur KA undir stjórn Arnars verður þann 18. júlí næstkomandi gegn Gróttu á Greifavelli á Akureyri en KA-menn hafa ekki byrjað mótið vel. Liðið er í ellefta og næst neðsta sæti deildarinnar með 3 stig, einu stigi minna en Grótta, en KA á leik til góða á Gróttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert