Tekið miklum framförum eftir komu Arnars

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals.
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna þrátt fyrir 1:0 sigur á KA í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu, en liðið hefur nú unnið fimm leiki af síðustu sex í deildinni og hefur fimm stiga forskot á toppi deildarinnar.

„Þetta var heppnismark. Það var gott að komast yfir snemma. Engu að síður spiluðum við ekki vel og boltinn gekk of hægt og varnarlega vorum við of langt frá mönnunum okkur, skipulagið var ekki nógu gott hjá okkur og þegar þú spilar á móti mjög vel skipulögðu liði KA, sem hefur tekið miklum framförum eftir að Addi (Arnar Grétarsson) tók við liðinu, og meðal annars gert jafntefli við KR og FH, þá erum við sáttir við þrjú stig,“ sagði Heimir eftir leik.

„Við vorum hundfúlir með varnarleikinn í hálfleik og reyndum að laga hann. Hann var aðeins betri í seinni hálfleik en það má bæta hann miðað við þennan leik," sagði Heimir.

Spurður hvort önnur kórónveirupásan hafi haft áhrif á gæði leiksins, sér í lagi á síðasta þriðjungi vallarins, sagði Heimir:

„Við vorum ekki að taka nógu góðar ákvarðanir á síðasta þriðjungi. Auðvitað tekur tíma fyrir menn að venjast þessu. Það eru engir áhorfendur og reglugerðir sem við þurfum að fara eftir. Valsliðið er ekki búið að spila 18 daga. Það tekur tíma fyrir menn að komast aftur í gírinn,“ sagði Heimir.

Eins og fyrr segir hefur vel gengið hjá Val í síðustu leikjum og styrkti liðið stöðu sína á toppnum með sigrinum í dag. Heimir tekur aftur á móti öllu með ró.

„Við tökum einn leik í einu og erum ánægðir með þessi þrjú stig. Svo heldur þetta áfram. Við erum á topnum núna. Vilja ekki allir vera þar?“ sagði Heimir.

Valsmenn lánuðu Ólaf Karl Finsen til FH á dögunum. Spurður hvort þeir ætli sér styrkja  leikmannahópinn sagði Heimir:

„Við fengum Kasper (Høgh) og hann hefur verið að koma fínn inn á æfingar hjá okkur. Við bindum miklar vonir við hann og eins og staðan er núna erum við ánægðir með hópinn og ég reikna ekki með neinum breytingum úr þessu," sagði Heimir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert