„Hefðum átt að vinna svona 7:0“

Hulda Ósk í baráttunni í leik Stjörnunnar og Þórs/KA síðasta …
Hulda Ósk í baráttunni í leik Stjörnunnar og Þórs/KA síðasta sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér líður nú ekkert frábærlega, við hefðum átt að vinna þennan leik líklega svona 7:0, en þetta verður bara að duga í dag,“ segir Hulda Ósk Jónsdóttir, leikmaður Þórs/KA, eftir 1:1 jafntefli við Stjörnuna í Garðabænum í kvöld, þar sem Akureyringar jöfnuðu metin á lokasekúndunum.

Leikurinn var tíðindalítill framan af en Þórs/KA-konur gerðu sig líklegri nánast allan leikinn. Það var svo um miðjan síðari hálfleik að Þór/KA fær á sig klaufalegt mark í kjölfar þess að tveir varnarmenn þeirra skullu saman og lágu eftir í jörðinni. María Catharina Ólafsdóttir Gros nýtti tækifærið og setti boltann í markið.

Klaufamark og vonbrigði

„Þetta var mjög mjög klaufalegt mark og vissulega vonbrigði, en ég meina, svona er boltinn. Það er ekki allt eins og maður vill,“ segir Hulda Ósk um markið.

Eins og heyrist er Hulda Ósk ekki alls kostar sátt við úrslitin. „Það var færanýtingin sem var ekki að ganga upp, það var aðallega það, annars spiluðum við bara helvíti vel á köflum.“

Erfiður leikur fram undan

„Það verður líklega erfiður næsti leikur, við verðum líklega ekki alveg eins mikið með boltann þá, en við tökum bara með okkur baráttuna og dugnaðinn í næsta leik,“ segir Hulda Ósk að lokum, en Þór/KA á næsta leik á miðvikudag við Breiðablik sem situr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga og markatöluna 35:0.

Þór/KA er í 5. sæti deildarinnar með ellefu stig eftir leik dagsins.

mbl.is