Yfirburðir Blika gegn máttlausum Stjörnumönnum

Thomas Mikkelsen reynir skot að marki Stjörnunnar í leiknum í …
Thomas Mikkelsen reynir skot að marki Stjörnunnar í leiknum í kvöld en Brynjar Gauti Guðjónsson og Daníel Laxdal miðverðir Garðbæinga fylgjast með Blikanum. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik vann afar verðskuldaðan 2:1 sigur á slöku liði Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Með sigrinum fara Blikar upp í 3. sæti deildarinnar þar sem þeir hafa 26 stig á meðan Stjarnan, sem var í 4. sæti fyrir umferðina, hefur 24 stig í 6. sæti.

Um algjöra einstefnu var að ræða í átt að marki Stjörnumanna í kvöld en Garðbæingar lágu afar aftarlega allan leikinn ef frá eru taldar lokamínúturnar og sköpuðu sér ekki eitt einasta færi í síðari hálfleik, tókst illa að halda boltanum innan síns liðs og skynja mátti ákveðið vonleysi í liðinu.

Breiðablik hóf leik líkt og svo oft áður með því að halda boltanum vel innan liðsins. Aftur á móti breytti Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari liðsins út frá venjunni og spilaði í þetta sinn með fjögurra varnarlínu í stað þriggja þar sem Damir Muminovic var í nýju hlutverki í bakverðinum og gaf boltann ítrekað fyrir.

Blikar áttu erfitt með að finna gat á vörn Stjörnumanna sem lágu með lið sitt svo aftarlega lungann af af fyrri hálfleiknum að það væru nánast ýkjur að segja að þeir hafi beitt skyndisóknum. Upp úr einni af örfáum þeirra, ef kalla má það sókn, kom fyrsta mark leiksins en þá fékk Alex Þór Hauksson, fyrirliði Garðbæinga, knöttinn tæpum 25 metrum frá markinu og þrumaði boltanum uppi í bláhornið.

Thomas Mikkelsen fékk besta færi leiksins á 31. mínútu er hann fylgdi á eftir skoti Gísla Eyjólfssonar. Frákastið tók hann á markteig en Daninn skóflaði boltanum vel yfir markið. Áfram héldu þó Blikar að reyna og á 34. mínútu tókst þeim að þræða nálaraugað inn í teig Stjörnunnar eftir ítrekaðar tilraunir, en þá jafnaði Viktor Karl Einarsson metin í 1:1 eftir sendingu frá Andra Rafn Yeoman, og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Blikar breyttu til í síðari hálfleik og fóru í þriggja manna varnarlínu í síðari hálfleik auk þess sem fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson kom inn á í stað Andra Rafns, eflaust með það í huga að fá fyrirgjafirnar frá Höskuldi í stað Damirs.

Og áfram héldu Blikar sem þurftu nauðsynlega á stigunum þremur á halda verandi stigi á eftir Garðbæingum sem eiga að auki leik til góða.

Á 62. mínútu var réttilega dæmd vítaspyrna á Alex Þór Hauksson sem braut á Brynjólfi innan teigs. Á punktinn fór danska vítaskyttan Thomas Mikkelsen sem skoraði örugglega úr vítinu og Breiðabliki í verðskuldaða 2:1 forystu.

Garðbæingar rönkuðu lítillega við sér eftir mark Blika en sköpuðu sér samt sem áður ekki eitt einasta færi á þeim hálftíma sem lifði leiks. Blikar höfðu yfirhöndina og sigldu stigunum þremur örugglega í hús.

Breiðablik 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Leik lokið Verðskuldaður sigur Breiðabliks á Stjörnunni í kvöld. Algjör einstefna í átt að marki Garðbæinga.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert