Valsmenn biðjast afsökunar á fögnuðinum

Valsmenn eru Íslandsmeistarar 2020.
Valsmenn eru Íslandsmeistarar 2020. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn sendu frá sér í kvöld afsökunarbeiðni vegna fögnuðar í húsakynnum félagsins í gærkvöld eftir að ljóst var að karlalið þeirra var orðið Íslandsmeistari í knattspyrnu.

Þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að brjóta sóttvarnareglur með samkomu sinni á Hlíðarenda og tilkynningin frá þeim er svohljóðandi:

Knattspyrnufélagið Valur vill biðjast afsökunar á þeim fögnuði sem fram fór í húsakynnum Vals í kjölfar frétta um að karlalið Vals hefði orðið Íslandsmeistarar 2020.  Fögnuðurinn var ekki í anda Vals né í samræmi við tilmæli yfirvalda.  

Valur ber fulla ábyrgð á þessari samkomu og harmar að hún hafi farið fram. Knattspyrnufélagið Valur hefur yfirfarið verkferla sína í kjölfarið til að tryggja að unnið sé í einu og öllu eftir tilmælum sóttvarnalæknis og yfirvalda. 

Þá vill Knattspyrnufélagið Valur nýta þetta tækifæri og óska kvennaliði Breiðabliks til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn.  Við viljum hvetja alla landsmenn til að standa saman við að ná fullri stjórn á Covid veirunni svo líf okkar allra geti orðið eðlilegra að nýju og landsmenn geti á ný farið að stunda skipulagðar íþróttir, öllum til heilla.

f.h. stjórnar Knattspyrnufélagsins Vals

Árni Pétur Jónsson, formaður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert