Eftirsóttur af íslenskum liðum

Jonathan Hendrickx í leik með Breiðabliki í maí 2019.
Jonathan Hendrickx í leik með Breiðabliki í maí 2019. mbl.is//Hari

Belgíski bakvörðurinn Jonathan Hendrickx er eftirsóttur af liðum í úrvalsdeild karla, Pepsi Max-deildinni, samkvæmt heimildum mbl.is.

Fyrr í vikunni bárust fréttir af því að KA á Akureyri hefði mikinn áhuga á því að fá leikmanninn sem verður 27 ára gamall í desember.

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa Breiðablik, FH og KR öll sett sig í samband við leikmanninn með það fyrir augum að semja við hann fyrir næsta ár.

Bakvörðurinn er samningsbundinn Lommel í belgísku B-deildinni en hann þekkir vel til hér á landi eftir að hafa leikið með bæði FH og Breiðbliki.

Hann á að baki 78 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað tvö mörk.

„Það eru meiri líkur en minni að ég spili á Íslandi næsta sumar,“ sagði bakvörðurinn í samtali við mbl.is.

mbl.is