Ísland tók stórt skref í átt að EM

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tók stórt skref í áttina að lokamóti Evrópumótsins sem fram fer á næsta ári með 1:0-sigri á Ungverjalandi á útivelli í dag í lokaleik liðsins í F-riðli.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sigurmarkið með fallegu skoti um miðjan seinni hálfleikinn. Ísland þarf hagstæð úrslit úr öðrum leikjum til að sætið á fjórða lokamótinu sé gulltryggt og gæti það gerst síðar í dag.

Íslenska liðið lék ágætlega í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að staðan hafi verið markalaus í leikhléi. Sveindís Jane Jónsdóttir var sérstaklega spræk á hægri kantinum og skapaði mikla hættu við vítateig Ungverja, en heimakonur vörðust mjög vel og Réka Szöcs var örugg í markinu. Ísland spilaði boltanum vel sín á milli og úr urðu nokkrar álitlegar sóknir, en illa gekk að skapa virkilega gott færi gegn þéttri vörn Ungverja.

Hinum megin fékk Ungverjaland eitt færi í hálfleiknum en Sandra Sigurðardóttir í markinu varði fína aukaspyrnu Önnu Csiki rétt utan teigs. Ísland fékk sex horn í fyrri hálfleik og reyndi sex skot, en það dugði skammt.

Ísland fékk afar gott færi til að skora fyrsta markið á 51. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir komst ein gegn Szöcs eftir flotta sendingu Öglu Maríu Albertsdóttur en markvörðurinn gerði glæsilega í að verja frá íslenska sóknarmanninum.

Szöcs kom hins vegar engum vörnum við á 65. mínútu þegar Berglind fékk boltann rétt utan teigs, steig út einn varnarmann og kláraði glæsilega upp í hornið og kom Íslandi yfir. Svava Rós Guðmundsdóttir, sem var nýkomin inn á, átti þátt í markinu.

Ungverska liðið reyndi hvað það gat til að jafna metin og sóttu nokkuð að íslenska liðinu, sem varðist þó vel og Sandra Sigurðardóttir var sterk í markinu og greip oft vel inn í þegar þær ungversku náðu inn fyrirgjöfum. Urðu mörkin því ekki fleiri og Ísland er skrefi nær fjórða Evrópumeistaramótinu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ungverjaland 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Sveindís reynir fyrirgjöf en boltinn endar ofan á markinu. Venjulegur leiktími er að líða.
mbl.is