Synd að leikirnir klárist ekki á sama tíma

Íslenska landsliðið stillir sér upp fyrir leik liðsins gegn Ungverjalandi …
Íslenska landsliðið stillir sér upp fyrir leik liðsins gegn Ungverjalandi í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Við erum bara í skýjunum með þessi sex stig í þessari ferð, þrjú stig í þessum leik og að enda riðilinn með 19 stig. Það er bara frábær árangur,“ sagði Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu í samtali við RÚV eftir 1:0 sigur gegn Ungverjalandi í undankeppni EM í dag.

Aðspurður um hver lykillinn að sigrinum væri sagði Jón Þór: „Það var auðvitað geggjað mark sem Berglind skoraði. Það þurfti eitthvað sérstakt í þessu til að brjóta ísinn og Berglind skoraði frábært mark. Það var það sem réði úrslitum.“

„Það er alltaf gott að vinna leiki, frábært að fá þessi þrjú stig og sex stig í þessari ferð. Við erum fyrst og fremst í skýjunum með það. Við höfum sýnt mikinn karakter. Þetta var erfitt í dag. Þær voru agaðar og skipulagðar og það var erfitt að brjóta þær niður en ég er í skýjunum með þessa niðurstöðu,“ bætti hann við.

Jón Þór segir það sérstakt að þurfa að bíða eftir endanlegri niðurstöðu um hvort íslenska liðið komist beint á EM.

„Þetta er mjög sérstakt. Það er synd að þetta skuli ekki allt klárast á sama tíma og að þessir leikir sem eru í dag, að þeir skuli ekki einu sinni vera allir á sama tíma. Það er mjög sérstakt en það er ekkert sem við getum gert í því annað en að bíða og sjá hvernig þau úrslit fara.“

„Við getum auðvitað fagnað okkar árangri, 19 stig í þessum riðli er frábær árangur og við auðvitað fögnum því,“ sagði hann að lokum.

Jón Þór Hauksson á hliðarlínunni í landsleiknum gegn Svíþjóð í …
Jón Þór Hauksson á hliðarlínunni í landsleiknum gegn Svíþjóð í september. Eggert Jóhannesson
Elín Metta Jensen í leiknum í dag.
Elín Metta Jensen í leiknum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller
mbl.is